Vefþjóðviljinn 146. tbl. 17. árg.
Ef að einhver staðar hefðu verið til peningar við afgreiðslu fjárlaga í desemeber til að hækka bætur til ellilífeyrisþega og öryrkja ætli Jóhanna og Steingrímur hefðu ekki látið það eftir sér? Ætli stjórnarþingmenn hefðu ekki almennt talið það sterkan leik rétt fyrir þingkosningar? Nei, vinstristjórnin taldi réttilega ekki til peninga í ríkiskassanum fyrir slíkum hækkunum. Hún neitaði sér um að skrifa þann gúmmítékka sem myndi smella í andlitið á skattgreiðendum í framtíðinni.
En nú kemur nýbakaður forsætisráðherra í Vikulokin í Ríkisútvarpinu og segir að þessi útgjöld verði aukin á „strax á sumarþinginu“:
Og leiðrétting er alveg rétta orðið þar vegna þess að þar var með skerðingunum um mitt ár 2009 í raun gengið á eignir þessa fólks svoleiðis að það var alger samstaða um það meðal stjórnarflokkanna að afnema skerðingarnar frá 1. júní 2009 og með því er í rauninni bara verið að leiðrétta stöðu þessa fólks sem hefur mátt þola meiri skerðingar en flestir aðrir samfélagshópar á undanförnum árum.
Þarna kemur „leiðréttingin“ rétt eina ferðina. Voru bæturnar ekki greiddar lögum samkvæmt undanfarin ár? Jú auðvitað. Verður öll aukning ríkisútgjalda héðan í frá kölluð „leiðrétting“? Og hvað heitir þetta gangvart þeim sem á endanum greiða þessi útgjöld, skattgreiðendum? Er þetta líka „leiðréttingin“ gagnvart þeim?
Menn sem leggja áherslu á þjóðmenningu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar ættu að sýna íslenskri tungu þá virðingu að snúa ekki merkingu orða á haus.
Sigmundur Davíð ræddi málin á Sprengisandi Bylgjunnar í morgun. Þar kom skýrt fram að þrepaskipting tekjuskatts verði ekki afnumin á þessu kjörtímabili. Þar virðist ekki þörf á neinni „leiðréttingu“ og ekki heldur þörf á að einfalda skattkerfið eða gæta jafnræðis borgaranna. Þetta er bæði þvert gegn kosningastefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og skýrri landsfundarályktun hans. Í ályktun landsfundar var efst á blaði:
Landsfundurinn telur að lækka beri eftirfarandi skatta á komandi kjörtímabili: • tekjuskatt einstaklinga, sem jafnframt verði í einu þrepi.
Hinir fimm nýju ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, sem brugðust allir í síðasta Icesave málinu, hafa kannski lagt ískalt hagsmunamat á þessa landsfundarályktun.