Vefþjóðviljinn 135. tbl. 17. árg.
Nú sitja formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við og vinna að myndun nýrrar ríkisstjórnar. Fréttamenn tala mikið um það hvenær fleiri komi að verkinu, svona eins og einhverjar líkur séu á að útkoman myndi skána við það.
Báðir flokkar boðuðu fyrir kosningar að þeir vildu bæta hag „skuldugra heimila“. Augljóst er að báðir hljóta að reyna að standa við það, ef ekki vegna þess að þeir hafi lofað af heilum hug, þá til að forðast reiði kjósenda að fjórum árum liðnum.
En hvernig á að gera það?
Þar eru skattalækkanir besta leiðin. Með þeim fær fólk strax að halda meiru af eigin ráðstöfunartekjum, sem auðveldar mönnum lífsbaráttuna, hvort sem hún felst í því að láta enda mætast um mánaðamót, eða veita sér eitthvað umfram nauðsynjar, en þannig auka menn ekki einungis eigin lífsánægju heldur skapa öðru fólki einnig ýmis viðskipti.
En hvað með þá kröfu margra að nota opinbert fé til að „lækka verðtryggð lán heimilanna“?
Sú aðgerð, hvað sem segja má um hana að öðru leyti, gerir merkilega lítið fyrir lífsbaráttu manna í augnablikinu. Það hvort höfuðstóll húsnæðislánsins er milljóninni meiri eða minni, skiptir ekki öllu fyrir fólk frá degi til dags. Það skiptir auðvitað ekki engu máli. Höfuðstóllinn hefur áhrif á vexti og afborganir og fyrir þá sem vilja selja eign sína skiptir auðvitað verulegu máli hvað hvílir á henni. En fyrir hina daglegu baráttu myndi skattalækkun skipta meira máli en innborgun á höfuðstól.
En á þessum tveimur leiðum er annar mikilvægur munur. Með skattalækkun er krumla ríkisins einfaldlega að taka minna af því sem hver og einn hafði unnið sér inn. Með greiðslum inn á lán fólks er allt annar hlutur gerður. Þá er fé tekið úr vasa skattgreiðenda og svo er farið með það til sumra þeirra sem tekið hafa ákveðna tegund af lánum, og þeim færðir peningarnir. Það er mikill munur á þessu tvennu, og er þá alls ekki gert lítið úr því að margir þeirra sem tekið hafa verðtryggð lán á síðustu árum hafa tapað á þróun síðustu ára, þróun sem þeir auðvitað réðu litlu um.
Er það í raun réttlætismál að skattleggja leigjandann til að lækka lán húseigandans sem leigir honum? Jafnvel þó menn hafi samúð með húseigandanum sem glímir við lán sem er orðið óhagstæðara en hann gerði ráð fyrir.
Það er ekki af skilningsleysi á högum þeirra sem horfa á höfuðstól lánsins síns hækka, sem menn gjalda varhug við því að skattgreiðendum sé gert að lækka höfuðstólinn. Það er af því að menn sjá ekki aðeins lántakandann sem tapar á skilmálum lánsins síns, heldur einnig skattgreiðandann sem á nóg með sitt.