Vefþjóðviljinn 134. tbl. 17. árg.
Í fréttum Ríkisútvarpsins í gær var sagt frá samþykkt fundar í Landeigendafélagi Reykjahlíðar þess efnis að hefja innheimtu gjalds af ferðamönnum sem sækja svæðið heim.
„Svæðin sem mest eru sótt á okkar landi, eins og málin standa í dag, eru svæðið vestan Dettifoss,“ segir Ólafur H. Jónsson, formaður félags landeigenda Reykjahlíðar. „Það eru hverir austan Námafjalls og svo Leirhnjúkssvæðið.“
Ólafur segir löngu ljóst að eitthvað þurfi að gera til að vernda þessi svæði. Opinber fjárstuðningur dugi ekki til að hægt sé að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir og því sé gjaldtaka eina leiðin. Stefnt sé að því að byggja upp salernisaðstöðu á þessum stöðum, bílastæði fyrir rútur, þjónustuhús og fleira.
Þeir sem halda því fram að aðgangseyrir að vinsælum ferðamannastöðum sé skattheimta og andmæla honum á þeirri forsendu hljóta að velta þessum orðum Ólafs fyrir sér. Hann bendir á að framlög hins opinbera nægi ekki til að vernda svæðið fyrir átroðningi. Slík framlög eru peningar sem koma úr vösum skattgreiðenda hvort sem þeim líkar betur eða verr. Með því að heimta gjöld af ferðamönnunum sjálfum væru skattgreiðendur einmitt losaðir undan því að styrkja kamrabyggingar og gerð stíga og bílastæða.
Svo mun sjálfsagt heyrast það sjónarmið að efnalitlir Íslendingar muni ekki eiga þess kost að skoða helstu náttúruperlur landsins ef slík gjöld verði innheimt. Vafalítið munu því koma fram tillögur um að Íslendingar fái einhvern gjaldfrjálsan aðgang að þeim stöðum sem eru í eigu ríkisins. Ef til vill er mögulegt að komast framhjá jafnræðisreglum ESS samningsins og veita íslenskum ríkisborgurum slíkan aðgang umfram aðra. Það verður sjálfsagt kannað.
En á hitt ber einnig að líta að það kostar nú þegar tugi þúsunda króna að fara á bíl frá Reykjavík norður að Dettifossi. Ekki er víst að eitt þúsund króna aðgangseyrir muni ráða úrslitum í því dæmi.