Vefþjóðviljinn 123. tbl. 17. árg.
Eitthvað er verulega undarlegt við stjórnarmyndunarfarsann sem nú er í gangi, þó fréttamenn virðist ekkert sjá athugavert við neitt.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk fleiri atkvæði en allir aðrir flokkar í kosningunum um helgina. Formaður hans lýsti því yfir opinberlega að hann teldi rétt að ræða stjórnarmyndun við forystu næst stærsta flokksins, Framsóknarflokksins. Slík stjórn hefði skýran meirihluta á þingi og er eina tveggjaflokkastjórnin sem möguleg er.
Af einhverjum ástæðum ákvað forseti Íslands að fela ekki formanni stærsta flokksins að mynda ríkisstjórn, heldur formanni næst stærsta flokksins. Úr því að fyrir liggur að formaður stærsta flokksins var reiðubúinn að hefja stjórnarmyndunarviðræður, en forsetinn ákveður samt að veita honum ekki „stjórnarmyndunarumboð“, þá getur raunveruleg skýring ekki verið önnur en sú að forseti, persónulega, vilji ekki að sú stjórn verði mynduð, heldur einhver önnur. Og þarf auðvitað engum að koma á óvart að núverandi forseti Íslands vilji ekki að Sjálfstæðisflokkurinn sitji í ríkisstjórn. Hann hefur ekki viljað það í hálfa öld. En það er auðvitað fráleitt ef persónulegar skoðanir forsetans eru farnar að skipta hér máli. Það er ekki eins og landið hafi búið við margra mánaða stjórnarkreppu.
Forseti Íslands felur formanni Framsóknarflokksins að mynda ríkisstjórn, en formaður Framsóknarflokksins er enn ekki farinn í stjórnarmyndunarviðræður. Hann efnir í staðinn til samfelldrar könnunar á því hvernig öðrum flokkum lítist á eitt tiltekið baráttumál Framsóknarflokksins. Menn verði að sverja þessu tiltekna kosningamáli hollustu, og fyrr verði engar stjórnarmyndunarviðræður.
Þetta er allt alveg fráleitt. Í því að vera falið „stjórnarmyndunarumboð“ fyrstum, þrátt fyrir að vera ekki stærsti flokkurinn, felst ekki einhver yfirnáttúruleg ákvörðun um að næsta ríkisstjórn verði mynduð utan um eitt tiltekið kosningamál stjórnmálaflokks sem 24% manna kusu á laugardaginn.
Úr því að formaður Framsóknarflokksins fékk „stjórnarmyndunarumboð“, og var þar tekinn fram yfir formann flokks sem fleiri Íslendingar kusu, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, þá bar honum auðvitað að hefja stjórnarmyndunarviðræður, en ekki láta eins og nú sé búið að ákveða að framkvæma eitt af hans eigin stefnumálum, og afgangurinn snúist bara um að finna þann sem lofar honum mestu og fái sá að vera með í því að uppfylla loforð Framsóknarflokksins.
Formaður sem fær „stjórnarmyndunarumboð“ getur gert tvennt. Hann getur hafið stjórnarmyndunarviðræður og séð hvernig þær ganga. Eða hann getur skilað „umboðinu“. Þreifingar eins og stundaðar hafa verið undanfarna daga geta komið til greina eftir langa stjórnarkreppu þegar allir flokkar hafa spreytt sig á stjórnarmyndunartilraunum. En að fyrsti maðurinn með „umboðið“ standi í slíku er óboðlegt.