Vefþjóðviljinn 117. tbl. 17. árg.
Þegar vinstristjórnin hélt völdunum við kosningarnar 2009, sagðist hún ætla að vera „norræn velferðarstjórn“. Til að leggja áherslu á þetta, var stjórnarsáttmálinn kynntur í norræna húsinu. Það segir meira en mörg orð um árangur stjórnarinnar að engir nema stjórnarandstæðingar kalla hana velferðarstjórn í dag, og það í háði. Á sama tíma og vinstristjórnin þykist gráta yfir því að hafa skert kjör aldraðra og öryrkja þá auglýsa Vinstrigrænir á heilu og hálfu blaðsíðunum að menn eigi að kjósa þá af því að þeir hafi tvöfaldað framlög til Kvikmyndasjóðs.
Fjögur ár af vinstristjórn hafa nýst Íslandi ákaflega illa. Ríkisstjórnin hefur efnt til ófriðar hvar sem hún hefur komið því við. Hún ákvað að kljúfa landsmenn með því að sækja um aðild að Evrópusambandinu, nokkrum vikum eftir að annar stjórnarflokkurinn hafði farið í gegnum kosningabaráttu sem sérstaklega harður andstæðingur þess að gengið yrði í Evrópusambandið. Hún efndi til nornaveiða gegn pólitískum andstæðingum. Landsdómshneykslið, þar sem Hreyfingin og nokkur væntanleg ráðherraefni Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi og Eygló, lögðu stjórninni lið, verður lengi í minnum haft. Ríkisstjórnin skar upp herör gegn undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, beinlínis til þess að minnka hagkvæmi hans og spilla rekstrarskilyrðum.
Ríkisstjórnin efndi til atlögu að stjórnarskrá lýðveldisins og eyddi til þeirrar herferðar meira en milljarði króna úr ríkissjóði og mörgum mánuðum af starfstíma Alþingis, sem kannski var bættur skaði. Hún fór fram hjá skýrri og réttri niðurstöðu Hæstaréttar landsins, í þráhyggju sinni.
Ríkisstjórnin hefur lagt á nýja skatta og hækkað þá sem fyrir voru hvað eftir annað. Hún seilist æ dýpra í vasa landsmanna. Kreddur og gæluverkefni hafa haft algeran forgang ríkisstjórnarinnar, en mál sem hefðu mátt gagnast hafa mætt afgangi. Ríkisstjórnin hefur tafið efnahagsbatann stórkostlega með því að þvælast fyrir, hindra fjárfestingu, skapa óróa og hækka álögur og gjöld hvar sem hún hefur séð færi á.
En hún hefur að vísu innleitt kynjaða hagstjórn.
Sumir halda að ríkisstjórnin hafi staðið fyrir endurreisn landsins. Það er fráleitt. Auðvitað hefur henni ekki tekist að drepa atvinnulífið alveg niður. Sjávarútvegurinn hefur skilað gríðarlegum verðmætum og stóriðjan líka. En ríkisstjórninni er ekki að þakka fyrir neitt af þessu. Það sem hefði átt að taka eitt til tvö ár hefur undir vinstri stjórn tekið fjögur. Ef viðreisn efnahagslífsins er eins og að ferðast úr Reykjavík upp í Borgarnes þá hafa Íslendingar undir forystu núverandi ríkisstjórnar farið suðurhringinn. Nú er ríkisstjórnarrútan komin í Vík í Mýrdal og bílstjórinn heldur krepptum hnefum um stýrið og segir án afláts: „Við nálgumst Borgarnes.“
Fyrir fjórum árum kusu menn þannig að vinstrimenn fengu færi á því að mynda vinstristjórn. Slíkt má ekki endurtaka sig. Í dag verður að kjósa þannig að vinstristjórn verði ekki mynduð. Til þess er einn kostur á kjörseðlinum öruggastur.
Í kosningunum í dag verður að kjósa vinstristjórnina burt. Ef það mistekst þá er síðasti maður úr Leifsstöð beðinn um að slökkva á eftir sér.