Vefþjóðviljinn 99. tbl. 17. árg.
Í lok áttunda áratugar síðustu aldar var Bretland kallað „sjúki maðurinn í Evrópu“. Það er ósennilegt að ungt fólk átti sig á því í dag hversu ástandið var slæmt í landinu, og þá ekki síst í bresku atvinnulífi. Sjálfsagðir hlutir eins og rafmagn og sími voru ekki eins sjálfsögð og menn eiga að venjast. Fyrirtæki bjuggu við það að rafmagnið fór af, kannski tvisvar eða þrisvar í viku. Það gat tekið fimm til sex vikur að fá símalínu. Rusl safnaðist gjarnan upp, því sorphirðan gekk jafn illa og annað.
Og annað var eftir þessu. Verkalýðsfélögin voru ótrúlega valdamikil og stóðu dyggilegan vörð um ótal heilagar kýr sínar. Stefna Verkamannaflokksins var ótrúlega langt til vinstri. Ríkiseign á sem allra flestu var boðorðið. Sérstaklega var stjórnvöldum í nöp við séreign á húsnæði og vildu að sem allra flestir yrðu að reiða sig á „félagslegt húsnæði“. Þrautpíndir skattgreiðendur voru látnir halda ótal atvinnugreinum uppi, sem ekki gátu spjarað sig án ríkisaðstoðar.
Almennt var álitið að Bretum myndi ekki takast að snúa hnignun landsins við.
En svo komst til valda stjórnmálamaður sem blés á viðtekin sannindi vinstrimanna, verkalýðsforkólfa, álitsgjafa, fréttamanna breska Ríkisútvarpsins og ótal félagslega þenkjandi fræðimanna. Þegar saman fer skýr lífsskoðun, einbeittur vilji til að vinna henni brautargengi, baráttuþrek og kjarkur sem fáum stjórnmálamönnum virðist gefinn – og einstaklingur með alla þessa eiginleika verður forsætisráðherra Bretlands, þá hlýtur eitthvað undan að láta. Og þarna var það Bretland stöðnunar, hafta og vonleysis sem lét undan.
Þessi forsætisráðherra, sem ekki þarf að segja neinum hver var, gerbreytti landi sínu til hins betra. Hún reis gegn ofurvaldi verkalýðsfélaganna og hún innleiddi frelsi á ótal sviðum. Frelsinu fylgdu framfarir og sívaxandi velmegun. Verkafólk fór smám saman að eignast eigið húsnæði, svo dæmi sé tekið. Fáum árum síðar datt ekki mörgum í hug að kalla Bretland „sjúka manninn í Evrópu“.
Sennilega gerir fátt ungt fólk sér grein fyrir því hvílíku grettistaki var lyft undir forystu konunnar sem síðan hefur mátt sitja undir hrakyrðum vinstrimanna flestra landa. Og verk hennar var hreint ekki eins auðvelt og sjálfsagt og margir ímynda sér kannski nú að það hafi verið. Við allar sínar þjóðfélagsbreytingar mætti hún gríðarlegri andspyrnu vinstri aflanna – ósjaldan sömu manna og nú láta eins og þeir séu sérstaklega nútímalegir. Og fólk sem lítið þekkir til sögunnar, sérstaklega yngri kjósendur eins og kannski er skiljanlegt, lætur sig jafnvel hafa það að kjósa þessa sömu vinstrimenn eða arftaka þeirra til valda.
Þeir sem hafa heimsmynd sína úr Guardian halda líklega að forsætisráðherrann hafi tekið við ágætu búi en hafi stefnt öllu í kaldakol misskiptingar og eymdar, og beri líklega líka ábyrgð á skuldakreppu Evrópusambandsríkjanna. Slíkt er þó fjarri öllu lagi. Það eru ekki frjáls viðskipti sem leggja skuldaklafa á ríki Evrópusambandsins. Frjáls markaður snýst um hagkvæma uppfyllingu þarfa sem flestra, samkeppni Gunnars og Héðins um að selja Njáli naglaklippur handa Bergþóru. Undanfarin ár hafa ráðamenn Evrópuríkja og margra fleiri ríkja stofnað til ótrúlegra skulda. En það er ekki vegna frelsis í viðskiptum heldur vegna þess að þeir láta jafnt og þétt undan kröfum þrýstihópa um fjárveitingar úr opinberum sjóðum. Ríkin taka jafnt og þétt að sér fleiri og fleiri verkefni og skyldur. Þau kosta stórfé. Og fyrir þeim eru tekin ótrúleg lán.
Eitt helsta vandamál vestrænna stjórnmála eru sannfæringarlausir stjórnmálamenn. Þeir sem líta á stjórnmál sem tæknileg úrlausnarefni þar sem allt snúist um að leita faglegra lausna og forðast deilur. Slíkir stjórnmálamenn, samræðustjórnmálamennirnir, munu sjaldan þora að rísa gegn útgjaldakröfum. Þeir munu sjaldan þora að hafna kröfum um ný verkefni, ný réttindi, nýjar skyldur, ný mannréttindi, nýjan björgunarpakka. Þeir hafa ekki sérstaka sannfæringu fyrir neinu, heldur gera viðhorfskannanir, fá rýnihópa og ráðgjafa til að segja sér hvaða „lausn“ veki minnstar deilur. Sé krafa hávær, þá sé nauðsynlegt að verða við henni, sama hvað sé rangt og hvað rétt.
Slíkir stjórnmálamenn hefðu ekkert gagn gert í Bretlandi þó þeir hefðu náð völdum vorið 1979. Þar þurfti stjórnmálamann með djúpa sannfæringu, stjórnmálamann sem var reiðubúinn að taka á sig verulegar óvinsældir, þola baknag samherja og samfellt hatur formlegra andstæðinga, vegna þess að hún vissi hvað Bretland þurfti og hvers vegna. Hún þurfti ekki að láta gera skoðanakönnun til þess að vita hvað væri rétt stefna og hvað væri röng. Hún flúði ekki frá skoðunum sínum þó að þær mættu andbyr, heldur barðist fyrir þeim af þeirri sannfæringu sem fjölmörgum af nýjustu kynslóð vestrænna stjórnmálamanna er algerlega óskiljanleg. Þegar hvessti gegn henni bugaðist hún ekki, þó samherjarnir hafi oft misst kjarkinn.
Nú er það vissulega ekki svo að nægilegt sé að stjórnmálamaður berjist af djúpri sannfæringu. Sé stefnan slæm og tillögurnar vondar þá gerir djúp sannfæring og baráttukraftur illt auðvitað verra. Ætli það sé ekki svo í flestum löndum, að vitlausustu þráhyggjumennirnir séu algerlega sannfærðir um misskilning sinn? En þegar stefnan er góð, þrauthugsuð og í samræmi við grundvallarreglur heilbrigðs þjóðfélags og réttarríkis, þá getur kröftugur stjórnmálamaður með djúpa sannfæringu gert landi sínu mikið gagn. Og þess fengu Bretar að njóta.
Það hefur stundum verið haft á orði, að ein merkilegasta breytingin sem þessi stjórnmálamaður hafi komið til leiðar í landi sínu, hafi verið breytingin sem varð á breska Verkamannaflokknum. Ein afleiðing þess árangurs sem náðist á stjórnarárum hennar hafi nefnilega verið sú, að breski Verkamannaflokkurinn næði aldrei völdum á nýjan leik. Vissulega hafi flokkur undir nafninu Nýi Verkamannaflokkurinn, New Labour, komist til valda, en sá ótrúlega vinstrisinnaði Verkamannaflokkur, sem áratugum saman atti kappi við Íhaldsflokkinn, sé horfinn og sjáist aldrei framar. Töluvert er til í þessu, svo langt sem það nær. Boðskapur Verkamannaflokks Tonys Blairs, Gordons Browns og Eds Millibands er óþekkjanlegur frá því sem Verkamannaflokkurinn barðist fyrir áratugina þar á undan og álitsgjafar, frambjóðendur, fréttamenn og fræðimenn töldu óumdeilanleg sannindi.
Íhaldsflokkurinn fékk auðvitað sinn John Major og yfirburðastaða flokksins hvarf undraskjótt. Eftir að Major og hans menn, þessir sem fjölmiðlamenn og álitsgjafar voru alltaf að segja að væru „kjósendavænni“ og „mildari“ en forverinn, náðu að glutra stöðu Íhaldsflokksins niður, þá tókst spunameisturum Verkamannaflokksins að halda völdum á Bretlandi í þrettán ár. John Major var og er hinn viðkunnanlegasti maður sem fæstir höfðu neitt sérstakt á móti. En hann bar ekki með sér sannfæringu, kjark og forystuhæfileika forvera síns, og svo fór sem fór. Meira að segja einu kosningarnar þar sem Íhaldsflokkurinn sigraði undir forystu Majors, árið 1992, unnust ekki fyrr en forverinn hellti sér í slaginn með arftaka sínum. Allt fram að því bentu flestar kannanir til öruggs sigurs Verkamannaflokks Kinnocks.
Þessi stjórnmálamaður hafði ekki aðeins auga fyrir því hvað betur mátti fara í hennar eigin landi. Hún var ósjaldan næm á einstaklinga og eiginleika þeirra. Fræg er vinátta og samstaða hennar og Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta, annars stjórnmálamanns sem vinstrimenn munu aldrei meta að verðleikum, sama hvað í húfi verður. En kannski skipti ekki minna máli hve snemma hún áttaði sig á Mikhail Gorbatsjof, leiðtoga Sovétríkjanna og því sem gerast kynni í Sovétríkjunum. Raunar bauð hún honum í opinbera heimsókn til Bretlands ári áður en hann varð leiðtogi Sovétríkjanna og fáir þekktu til hans. Samband þeirra hafði töluverð áhrif á stöðu Gorbatsjofs í Sovétríkjunum og þá atburðarás sem þar varð. Um annan þjóðarleiðtoga, Bill Clinton, hafði hún á efri árum hins vegar þau orð, að hann væri vissulega „a great communicator. The trouble is, he has absolutely nothing to communicate.“ Og ef einhvern langar að rifja upp fleiri einfaldar athugasemdir hennar þá er engin sérstök ástæða til að sleppa því að nefna að í síðustu bók hennar hófst einn kaflinn á þessum skrúðlausu orðum, sem höfundurinn vissulega tók fram að væru alhæfing: „During my lifetime most of the problems the world has faced have come, in one fashion and other, from mainland Europe, and the solutions from outside it.“
Það er langt í að hún verði almennt metin að verðleikum. Þær eru margar sárar ennþá, vinstritærnar sem hún steig á, og þeim er víða ennþá trúað, ranghugmyndunum sem hún hrakti á flótta. Hann er ekki fámennur hópurinn sem enn hefur allt á hornum sér þegar hún er nefnd. Breskar sjónvarpsstöðvar sýndu í gær skeggjuð ungmenni dansa í ákafa og lyfta kampavínsglösum til að fagna andláti hennar. Ótrúlega margir þeirra sem ekki gætu hugsað sér tilveruna án þess stóra og smáa sem frjáls viðskipti gera mögulegt, án þess alls sem hugvit og framkvæmdahugur hafa leyst úr læðingi á síðustu áratugum bæði á Bretlandi og ótrúlega víða annars staðar, þeir hafa ekki hugmynd um það að konan, sem þeir vita að þeir eiga að hata, er pólitísk guðmóðir þessa alls.