Mánudagur 8. apríl 2013

Vefþjóðviljinn 98. tbl. 17. árg.

Kannski munu Framsóknarmenn næst lofa að Staffan Olson borgi kostnaðinn af kosningaloforðum þeirra. Hver getur verið á móti því?
Kannski munu Framsóknarmenn næst lofa að Staffan Olson borgi kostnaðinn af kosningaloforðum þeirra. Hver getur verið á móti því?

Þetta er farið að minna svolítið á útrásina, þegar hún var upp á sitt stórtækasta. Þar urðu tölurnar svo stórar, og í slíkri órafjarlægð frá daglegum viðfangsefnum venjulegs fólks, að margir misstu áttanna og lögðu ekki sama mælikvarða á málflutning útrásarmanna og annarra, settu fullyrðingar þeirra og loforð ekki undir sama mælikvarða og þeir hefðu vafalaust gert ef um jarðbundnari tölur væri að ræða.

Sama virðist eiga við um kosningaloforð Framsóknarflokksins. Þau eru orðin svo tryllingsleg, að fólk spyr sig ekki sömu spurninga og það gerir þegar það heyrir jarðbundnari málflutning. Í raun ætlar Framsóknarflokkurinn að dæla mörg hundruð milljörðum króna úr ríkissjóði til að lækka skuldir sem einhverjir hafa stofnað til, jafnvel menn sem hafa grætt stórfé á verðhækkun fasteigna síðusta hálfan annan áratuginn. 

Önnur eins loforð um skuldaniðurfellingar á kostnað annarra hafa ekki sést síðan á verstu upplausnardögum Rómaveldis. 

En nú segir Framsóknarflokkurinn að peningarnir eigi ekki að koma úr ríkissjóði heldur frá vondu vogunarsjóðunum. Þeir séu „hrægammar“ og þess vegna megi taka af þeim hundruð milljarða. Jafnvel með samningum.

Jafnvel þótt hægt væri að fá slíkt fé frá kröfuhöfum gömlu bankanna þá yrði skuldalækkunin alltaf greidd úr ríkissjóði. Peningurinn færi frá kröfuhöfum bankanna í ríkissjóð og þar myndi Vigdís Hauksdóttir fjármálaráðherra dæla þeim út. 

Menn skilja þetta best með því að setja inn eitthvað annað heiti en „hrægamma“, og eitthvað annað verkefni en gríðarlegar skuldaniðurfellingar. Segjum að stjórnmálaflokkur lofi að bora göng í gegnum Hellisheiði. Hann er spurður hvort ríkissjóður hafi efni á þessu. „Nei sjáðu til“, segir hann, „ríkissjóður borgar þetta ekki. Við ætlum að nota peningana sem fást af tekjuskatti á Vestfjörðum til að borga þessa framkvæmd.“ – Auðvitað myndu allir skilja að göngin yrðu boruð á kostnað ríkisins, hvaðan sem ríkið fékk nákvæmlega þær krónur sem notaðar eru. Það er auðvelt að skilja ein jarðgöng og afmarkaðan tekjuskatt. En svo virðist hins vegar sem stór hópur fólks og fréttamanna sjái ekki sömu staðreyndir, þegar þessi auðskiljanlegu hugtök hafa breyst í óskilgreinda „hrægamma“ og óskiljanlegar fjárhæðir eins og hundraða milljarða króna niðurfellingar óskilgreindra skulda.

Ríkissjóður skuldar gríðarlegar fjárhæðir. Þeirra verður ríkissjóður að afla frá skattgreiðendum framtíðarinnar. Ef ríkissjóður næði nú hundruðum milljarða frá „hrægömmunum“, þá yrðu þeir peningar um leið að peningum ríkissjóðs. Ef Framsóknarflokkurinn tekur svo þessa sömu ímynduðu milljarða úr ríkissjóði, og ver þeim til þess að lækka lán óskilgreinds hóps manna, þá yrði sú aðgerð auðvitað á kostnað skattgreiðenda en ekki „hrægammanna“. Þessir ríkispeningar hefðu annars orðið til þess að lækka skuldir ríkissjóðs sem lenda á skattgreiðendum. 

Öll loforð Framsóknarflokksins eru gefin á kostnað skattgreiðenda, bæði núverandi skattgreiðenda og barna þeirra. 

Þetta er nú allur glæsileikinn. Þetta ætla margir víst að kjósa og virðast sumir halda að þeir séu menn að meiri fyrir vikið. Halda að það sýni hversu miklar kröfur þeir geri til annarra. „Ég hef nú alltaf kosið minn flokk. En nú kýs Ég sko framsókn. Þar eru stefnufastir menn.“