Laugardagur 6. apríl 2013

Vefþjóðviljinn 96. tbl. 17. árg.

Andríki varar við þeirri stórfelldu þjóðnýtingu einkaskulda sem nokkrir stjórnmálaflokkar lofa.
Andríki varar við þeirri stórfelldu þjóðnýtingu einkaskulda sem nokkrir stjórnmálaflokkar lofa.

Allir stjórnmálaflokkarnir virðast sammála um að semja eigi við kröfuhafa gömlu bankanna um einhvers konar búhnykk fyrir ríkissjóð Íslands. Enginn getur þó fullyrt um hve háa fjárhæð væri að ræða eða hvenær hún myndi skila sér. Yrði það eftir 6 mánuði eða 6 ár?

Hæstu tölur sem nefndar hafa verið í þessu sambandi eru 400 milljarðar króna. Ef slík fjárhæð kæmi inn í ríkissjóð myndi hún lækka skuldir ríkissjóðs nokkuð, kannski úr 90% í 70% af landsframleiðslu, ef miðað er við lægstu tölur um skuldir ríkissjóðsins. Ríkissjóður væri eftir sem áður stórskuldugur.

Nokkrir stjórnmálaflokkar hafa hins vegar heitið því að takist að lækka skuldir ríkissjóðs með þessum hætti verði skuldirnar auknar samstundis á ný í 90% (kunnugleg tala úr kosningaloforðum) með því að dreifa fjármunum til heimila með verðtryggð húsnæðislán. Oftast er rætt um 20% niðurgreiðslur á höfuðstól lána í þessu sambandi. Hjón með góðar tekjur í 75 milljón króna húsi með 25 milljón króna lán fengju þannig 5 milljónir úr ríkissjóði. 

Vefþjóðviljinn hefur aldrei heyrt aðrar eins tillögur um aukin ríkisútgjöld. Og að stórum hluta myndu þau enda hjá fólki sem hefur hagnast á íbúðakaupum sínum og ræður vel við afborganir lána.

Reikningurinn væri hins vegar sendur inn í framtíðina.

Að þessu tilefni birti Andríki auglýsinguna hér til hliðar í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.