Vefþjóðviljinn 92. tbl. 17. árg.
Forystumenn stjórnmálaflokkanna mættust í Ríkissjónvarpinu í kvöld í ágætum umræðuþætti.
Það bar helst til tíðinda að enginn þeirra vildi fullyrða að menn væru með mörg hundruð milljarða vinning frá „hrægömmunum“ í hendi.
Vonandi er þar með lokið umræðu um hvernig verja eigi þessum peningum sem enginn veit hvort eða hvenær koma í hús. Það hefði enda mátt ætla að heilt bankahrun kenndi mönnum að afla fyrst og eyða svo.
Því má svo velta fyrir sér hvað það hefur kostað að gefa fólki ádrátt í rúm fjögur ár um að verðtryggðar skuldir verði „leiðréttar“ með töfrabrögðum. Hvað hafa margir seinkað því að taka til í eigin málum, semja við lánveitendur, breyta óhagstæðum lánum í önnur hagstæðari, verðtryggðum í óverðtryggð, í von um að leiðréttingakanínan kæmi skyndilega upp úr hatti?