Vefþjóðviljinn 90. tbl. 17. árg.
Skoðanakannanir sýna um þessar mundir alveg einstæða andstöðu yfirgnæfandi meirihluta fólks við inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Sjö af hverjum tíu segjast andsnúnir aðild. Tæplega sex af hverjum tíu segjast örugglega munu greiða atkvæði gegn aðild. Aðeins einn af hverjum níu segist örugglega munu greiða atkvæði með aðild.
En hvers vegna á að slíta viðræðunum? Er ekki einfaldast að „klára viðræðurnar“? Hvers vegna má fólk ekki „sjá hvað kemur út úr samningunum?“.
Það er ein af mörgum blekkingum klækjastjórnmálarefa, að yfir standi mikilvægar „samningaviðræður“.
Staðreyndin er sú, að Evrópusambandið lítur svo á, að í umsókn um aðild felist yfirlýsing um að menn hafi ákveðið að ganga inn. Umsókn um aðild að Evrópusambandinu er ekki það sama og að skoða íbúð eða máta kjól. Ef umsókn er lögð fram og Evrópusambandið samþykkir að hefja viðræður, þá snúast þær viðræður um það hvað umsóknarríkið þarf að gera til þess að komast inn. En ekki um það hverju Evrópusambandið þarf að breyta hjá sér.
Þeir sem vilja „klára viðræðurnar“, flestir þeirra eru í raun að segja að þeir vilji ganga inn í Evrópusambandið, en þeir vita bara að það er ekki taktíst að segja það hreint út strax. Sumir eru reyndar heiðarlegir að því leyti að þeir halda sjálfir að Ísland sé bara í fyrstu skoðun í íbúð sem hafi verið auglýst til sölu. En staðreyndin er önnur. Ísland hefur lýst því yfir að það vilji ganga í Evrópusambandið.
Og þess vegna á að afturkalla umsóknina, því meginþorri Íslendinga vill ekki ganga í Evrópusambandið.
En getur þetta verið rétt, er þetta ekki bara eitthvert fals í andstæðingum aðildar? Verður aðildarsamningur ekki borinn undir landsmenn í lokin?
Hvað segir Evrópusambandið sjálft? Það má alveg eiga það, að það þykist ekki vera í þeim „samningaviðræðum“ sem íslenskir álitsgjafar segja löndum sínum að séu í gangi.
Evrópusambandið segir sjálft, í eigin útgáfu Stækkunardeildar sinnar, þar sem formálann skrifar sjálfur Olli Rehn:
First, it is important to underline that the term “negotiation”can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate’s adoption, implementation and application of EU rules – some 90,000 pages of them. And these rules (also known as “acquis”, French for “that which has been agreed”) are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures. For the EU, it is important to obtain guarantees on the date and effectiveness of each candidate’s implementation of the rules.
Þetta þarfnast ekki þýðingar. Viðræðurnar snúast um hvernig „umsóknarríkið“ innleiðir 90.000 blaðsíður af reglum frá Brussel. Þær eru ekki umsemjanlegar. Þetta eru „viðræðurnar“ sem sumir halda að þeir vilji „klára“ til þess að „sjá samninginn“ og einhverjir halda að þeir þurfi að skammast sín fyrir að vilja stöðva.
Vefþjóðvilinn óskar lesendum sínum öllum gleðilegra páska.