Vefþjóðviljinn 86. tbl. 17. árg.
Niðurstöður skoðanakannana sem birst hafa síðustu vikur eru bæði ógnvænlegar og ánægjulegar.
Þær eru ógnvænlegar því þær benda eindregið til þess að ný vinstristjórn verði mynduð að loknum kosningum. Framsóknarflokkurinn hefur aldrei verið trygging gegn vinstristjórn. Fái hann mikið fylgi, má eindregið gera ráð fyrir því að hann vinni fremur til vinstri en hægri, nýti sér að vera stóri flokkurinn í samstarfi við tvo eða þrjá vinstriflokka, það er að segja núverandi stjórnarflokka, Samfylkingu I og II, og Vinstrigræna. Þeir sem nú ætla að kjósa Sigmund Davíð Gunnlaugsson til að fá borgaralega stjórn með Sjálfstæðisflokknum munu líklega fá vinstristjórn og tuttugu Höskulda og Eyglær. Atkvæði greidd Framsóknarflokknum í þeim mæli sem kannanir benda nú til, munu ekki nýtast til að koma vinstriflokkunum frá völdum.
Þetta er það ógnvænlega við niðurstöður kannananna.
Það ánægjulega er að andstaða Íslendinga við aðild að Evrópusambandinu hefur aldrei verið útbreiddari eða harðari. Samkvæmt nýrri könnun Samtaka iðnaðarins segjast segjast um sjötíu prósent landsmanna örugglega eða líklega kjósa gegn aðild að Evrópusambandinu. Hvorki meira né minna en 52,7% landsmanna segjast „örugglega“ kjósa munu gegn ESB-aðild en aðeins 11,7% með henni. Þetta eru fáheyrðar niðurstöður og sýna alveg einstaka stöðu í Evrópusambandsmálum. Svo eindreginn munur á þeim sem eru harðákveðnir í afstöðu sinni, hlýtur að hafa mikil áhrif á alþingiskosningar sem fara fram um sama leyti.
Það er alveg ljóst að geysilegur fjöldi kjósenda mun láta það ráða afstöðu sinni hverjum þeir treysta best til að bregðast ekki á varðstöðunni gegn Evrópusambandsaðild.
Það er ekki vafi að skyndileg fylgisaukning Framsóknarflokksins á kostnað Sjálfstæðisflokksins helgast af því að á allra síðustu vikum hefur verið dregin upp sú mynd í fjölmiðlum að forystu Sjálfstæðisflokksins sé ekki treystandi í málinu og að þótt landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi ályktað eindregið gegn ESB-aðild þá sé forystan fremur að hugsa um örfáa ESB-sinna heldur en allan fjöldann sem er eindreginn gegn aðildinni. Þessu hafa fjölmargir farið að trúa á allra síðustu vikum, en verður vafalaust leiðrétt af krafti þegar baráttan byrjar fyrir alvöru.
Hlægilegasta kenning stjórnmálanna síðustu mánuði birtist á dögunum í kjaftadálki umræðusíðu sem þykir hliðholl Samfylkingunni. Þar var því haldið fram, að skýringin á fylgisaukningu Framsóknarflokksins væri sú að Evrópusinnar færu nú frá Sjálfstæðisflokknum af því að flokkurinn hefði ályktað af eindrægni gegn Evrópusambandsaðild. Með þessu var auðvitað reynt að plata sjálfstæðismenn til að afneita eigin stefnu og reyna að höfða frekar til þessara 11,7% sem ætla örugglega að greiða atkvæði með inngöngu en þessara 52,7% sem eru örugglega á móti henni.
En auðvitað munu þessar tilraunir mistakast. Allir sjá að þessi kenning gengur ekki upp. Af hverju ættu Evrópusinnar að fara til Sigmundar Davíðs, Ásmundar Einars formanns Heimssýnar og Vigdísar Hauksdóttur, en Samfylkingin að mælast föst í tólf prósentum? Málið er einfaldlega að það er enginn að fara að græða á ESB-stuðningi í þessum kosningum. Samfylkingin veit það, en vill auðvitað reyna að koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn njóti ESB-andstöðunnar í landinu. Þess vegna reyna álitsgjafar hennar og fréttamenn nú allt sem þeir geta til að hræða sjálfstæðismenn frá eigin stefnu, sem var mörkuð skýr og afdráttarlaus á landsfundi. Þess vegna segja kratar nú á hverjum degi við sjálfstæðismenn að ef þeir sýni ekki þessum 70% landsmanna fingurinn, þá fái þeir ekki atkvæði Benedikts Jóhannessonar.
Auðvitað sjá allir, að á þeim tíma þegar andstaða við ESB-aðild er í Íslandsmeti, bæði hvað varðar sannfæringu og útbreiðslu, þá er Sjálfstæðisflokkurinn ekki að tapa fylgi og það yfir til Framsóknarflokksins, vegna þess að flokkurinn sé of mikið gegn Evrópusambandsaðild. Enda heldur ekki nokkur velvildarmaður Sjálfstæðisflokksins því fram. Aðeins þeir sem óttast að Sjálfstæðisflokkurinn fylgi yfirlýstri stefnu sinni, sem höfðar til 70% þjóðarinnar um þessar mundir.
Auðvitað sjá allir að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur síðustu vikur farið yfir til Framsóknarflokksins, vegna þess að 10-15%, sem áður ætluðu að kjósa flokkinn, hafa á allra síðustu vikum fengið þá hugmynd að Sjálfstæðisflokknum og forystu hans sé ekki treystandi í Evrópusambandsmálum. Þegar forysta Sjálfstæðisflokksins mun leiðrétta þann misskilning, og leiðrétta þann misskilning að hún standi ekki heil á bak við ályktun eigin landsfundar í málinu, þá mun þetta væntanlega breytast. Eða vinstristjórn heldur áfram í landinu.
Engin ástæða er til að ætla að áróðursmönnum Samfylkingarinnar verði að þeirri ósk sinni að á meðan yfirgnæfandi meirihluti landsmanna er grjótharður gegn Evrópusambandsaðild, muni forysta Sjálfstæðisflokksins verja síðustu fjórum vikum kosningabaráttunnar í að reyna að friða Þóri Stephensen. Álitsgjafar vinstrimanna munu auðvitað þráspyrja frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hvernig þeir ætli að friðmælast við Evrópusinna, enda vita álitsgjafarnir að slík friðkaup hafa aldrei skilað Sjálfstæðisflokknum neinu. En frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins munu varla falla í þær gildrur.
En ef krötunum verður að þeirri ósk að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins falli í gildruna, þá verða Íslendingar að byrja að venja sig við tilhugsunina um fjögur ár af nýrri vinstristjórn.