Vefþjóðviljinn 85. tbl. 17. árg.
Hjalti Sigurðarson birti grafið hér að neðan á Facebook síðu sinni. Það sýnir hvert veðsetningarhlutfall fasteigna er eftir því hvenær þær voru keyptar. Miðað er við að kaupin hafi verið fjármögnuð með 100% lánsfé og vextir hafi verið greiddir af láninu frá upphafi.
Eins og sjá má eru það aðeins kaup á nokkurra ára bili, 2005 – 2008, sem leiða til þess að menn sitja nú í yfirveðsettum eignum. Margir þeirra hafa svo farið 110% leiðina og fengið lán sín lækkuð niður í 110% af verðmæti eigna sinna. Það var talsverð búbót fyrir þá sem keyptu á hátindi fasteignaverðbólunnar. Og auðvitað tóku ekki allir 100% lán.
En þetta graf sýnir vel hve galið það væri að fara í flata niðurfærslu á lánum fasteignaeigenda, eins og Framsóknarflokkurinn lofaði árið 2009, en sveik, og lofar nú aftur.
Stór hluti fasteignaeigenda hefur hagnast á íbúðarkaupum sínum og hefur ekkert við gjafir frá öðrum skattgreiðendum að gera.