Vefþjóðviljinn 68. tbl. 17. árg.
Þegar hinir skelfilegu Svavarssamningar um Icesave lágu fyrir sumarið 2009 tóku þingmenn Sjálfstæðisflokksins undir forystu Bjarna Benediktssonar til varna fyrir almenning í landinu og börðust gegn ánauðinni. Hið sama gerðu flestir almennir sjálfstæðismenn.
Á því voru þó undantekningar. Helgi Magnússon formaður Samtaka iðnaðarins lýsti því yfir í Fréttablaðinu 4. júlí 2009 að Íslendingar væru að „standa við skuldbindingar sínar“:
Ég öfunda alþingismenn ekki af því að þurfa að leiða þetta erfiða mál til lykta en ég er þeirrar skoðunar að við eigum engan annan kost en að samþykkja samninginn og ljúka málinu. Íslendingar standa við skuldbindingar sínar og ég óttast afleiðingar þess ef Alþingi fellir samninginn. Þá tæki við enn meiri óvissa í íslensku efnahagslífi en nú er. Nóg er nú samt.
Í gær ritaði Helgi grein í Fréttablaðið þar sem sagði að forysta Sjálfstæðisflokksins væri „veik og ráðvillt“ því hún hefði ekki gert nægilega tilraun til að afstýra því að orðalagi í ályktun landsfundar flokksins um aðildarviðræður við ESB væri breytt í samræmi við vilja mikils meirihluta fundarmanna. Helgi vildi að forystan tæki ráðin með einhverjum hætti af yfirgnæfandi meirihluta 1.500 fundarmanna. Því Helgi vill Ísland í Evrópusambandið og telur að fyrst almennir sjálfstæðismenn kæri sig ekki um aðild eigi forysta flokksins „að leiða stefnumótun flokksins inn á farsælar brautir.“
Er Helgi Magnússon alveg viss um að hann vilji ráðleggja löndum sínum frekar um samningamál og samskiptin við aðrar þjóðir? Nóg er nú samt.