Miðvikudagur 6. mars 2013

Vefþjóðviljinn 65. tbl. 17. árg.

Þór Saari segir í dag að ríkisstjórnin hafi framið valdarán. Þess eru vitaskuld ýmis dæmi að sitjandi ríkisstjórnir hafi komist til valda með því að ræna þeim, en það er hins vegar nýbreytni að sitjandi ríkisstjórn sé sökuð um valdarán sem hafi farið fram á því kjörtímabili þar sem hún hefur setið frá upphafi. 

Þór Saari sér ekkert að því hvernig ríkisstjórnin náði völdum, hvernig sótt var að lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum með aðsúgi og eignaspjöllum, þar til þingið var leyst upp og efnt til kosninga á meðan margt fólk var í miklu uppnámi vegna bankahrunsins. Það sem Þór Saari telur hins vegar valdarán, er að ekki sé tafarlaust farið eftir vilja þess þriðjungs kjósenda sem lýsti sömu afstöðu og Þór í ráðgefandi atkvæðagreiðslu sem efnt var til síðasta haust.

Samkvæmt lögum var atkvæðagreiðslan aðeins ráðgefandi. Kjósendur vissu það, þegar þeir tóku ákvörðun um hvort þeir færu á kjörstað eða ekki. Þegar efnt er til slíkrar atkvæðagreiðslu um stjórnarskrárhugmyndir þá er í raun auðvitað verið að kanna hversu já-atkvæðin verða mörg. Hversu mikill stuðningur er í við það í landinu að skipta stjórnarskrá þess út fyrir nýja hugmynd.

Og það var mælt í kosningunni. Það var þriðjungur landsmanna sem vildi það í október á síðasta ári. Aðrir tóku þann kost að lýsa ekki stuðningi við þetta mál.

Menn ættu svo ekki að gleyma því, að síðan þessi ráðgefandi kosning fór fram áður en næstum allir fræðimenn á sviði stjórnskipunar og raunar stjórnmálafræði útskýrðu stórfellda galla á hugmyndinni. Að ógleymdum erlendum sérfræðingum, sem minna máli skipta í þessu samhengi.

Hvernig væri nú að fréttamenn minntu á að einungis þriðjungur kjósenda hefur nokkurn tíma lýst stuðningi við þetta samsull. Einungis þriðjungur lét sig hafa það að kjósa í kosningu sem síðar kom í ljós að var ógild vegna mjög alvarlegra galla á framkvæmdinni. Það er stuðningurinn. Þriðjungur landsmanna.

Margt má réttilega segja um núverandi stjórnvöld. En ekki að þau hafi framið valdarán með því að afhenda ekki stjórnarskrárvaldið í landinu til þessa háværa hóps.