Vefþjóðviljinn 64. tbl. 17. árg.
F
ramsóknarflokkurinn studdi Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon til valda í ársbyrjun 2009. Framsóknarflokkurinn gerði sömuleiðis kröfu um þingkosningar í miðri ringulreiðinni, áður en fólk fengi ráðrúm til að átta sig sæmilega á afleiðingum bankahrunsins.
Í þingkosningunum í apríl 2009 náðu Jóhanna og Steingrímur svo meirihluta og þurftu ekki frekara liðsinni Framsóknar. En Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar ekki legið á liði sínu þegar ýmis óþurftarmál ríkisstjórnarflokkanna hafa komið fyrir þingið.
Þannig studdu 6 af 9 þingmönnum flokksins hina pólitísku ákæru á hendur fyrrum forsætisráðherra landsins. Án liðveislu Eyglóar Harðardóttur, Sigurðar Inga Jóhannssonar og fleiri framsóknarmanna hefði ákæran gegn Geir H. Haarde ekki náð fram að ganga.
Eygló núverandi ritari Framsóknarflokksins og Sigurður varaformaður voru tveir af fimm flutningsmönnum tillögunnar um hina pólitísku ákæru. Án þeirra hefði tillagan jafnvel ekki verið flutt.