Vefþjóðviljinn 51. tbl. 17. árg.
Fer það saman að eiga vopn til veiða og vera dýravinur? Frá því var sagt nýlega í Smartlandi að dýravinurinn og fjöllistakonan María Birta hefði fengið leyfi til að bera vopn til viðbótar við allt annað.
Stutt er síðan María Birta fékk sér skotvopnaleyfi en hún hefur ekki gert það upp við sig hvort hún ætlar að sækja um að veiðahreindýr á næsta ári. „Ég hef nú ekki farið í neinar veiðiferðir síðan ég fékk skotveiðileyfið, en mér finnst mjög gaman að skjóta leirdúfur. Ég hef ekki enn ákveðið hvort ég sæki um að veiða hreindýr, en mig grunar nú að ég muni gera það. Ég fékk að fljóta með á hreindýraskyttiríi í fyrra og þótti það alveg ótrúleg upplifun.“ Þrátt fyrir að vera með byssuleyfi er María Birta mikill dýravinur og hefur átt fjöldann allan af dýrum en núna er það kanínan Lúlli sem á hug hennar og hjarta. „Ég elska öll dýr og hef átt þau flest, slöngu, skjaldbökur, hamstra, ketti, hunda, fiska, snigla, maríuhænur og svona mætti lengi telja, en kanínur eru í miklu uppáhaldi og Lúlli er án efa sætasta kanína í heiminum.
Það er auðvitað ekki alveg nægjanlegt skilyrði til verndar dýrategundum að maðurinn geti drepið þau sér til matar eða annarrar upplifunar. En í flestum tilfellum er það nauðsynlegt. Það sem þarf þó til viðbótar er einhvers konar eignar- eða nýtingarréttur. Að öðrum kosti gætir enginn að hjörðinni, höfuðstólnum.
Þau eru óteljandi dæmin um hvernig illa skilgreindur eignarréttur leiðir til ofnýtingar og í ýmsum tilvikum útrýmingar dýrategunda.