Vefþjóðviljinn 43. tbl. 17. árg.
Framsóknarflokkurinn er kominn í veruleg vandræði með að útskýra hugmyndir sínar um „leiðréttingu“ skulda því eins og menn vita eru aðstæður skuldara jafn ólíkar og þeir eru margir og lánveitendur eru ekki aðeins hinir úthrópuðu vogunarsjóðir heldur lífeyrissjóðir og svo skattgreiðendur í gegnum hinn volaða Íbúðalánasjóð ríkisins.
Ein ástæðan fyrir skuldavandræðum fólks er mikil skuldsetning á árunum 2003 til 2008.
Líkt og Vefþjóðviljinn hefur margsinnis rakið gerði Framsóknarflokkurinn það að sínu helsta stefnumáli fyrir þingkosningar vorið 2003 að hækka veðsetningarhlutföll verðtryggðra lána Íbúðalánasjóðs úr 70 í 90% og hækkun hámarkslána. Flokkurinn setti jafnvel upp reiknivél á heimasíðu sinni þar sem menn gátu skoðað hvað þeir fengju miklu meira lánað tækist flokknum að hanga í ríkisstjórn!
Þetta hratt af stað hinni mögnuðu fasteignabólu á árunum 2004 til 2008.
En er það ekki einföldun að þetta sé allt Framsóknarflokknum að kenna? Jú líklega er það ekki alveg rétt með farið. Dagný Jónsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins sagði að þetta væri allt Framsóknarflokknum að þakka.