Þriðjudagur 5. febrúar 2013

Vefþjóðviljinn 36. tbl. 17. árg.

Neytendastofa er ein af mörgum eftirlitsstofnunum ríkisins sem stofnuð var á „frjálshyggjuárunum“ fyrir hrun, þarna þegar allt eftirlit var afnumið. Hún sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem sagði frá eftirliti stofnunarinnar með vínmálum. Við eftirlit stofunnar á 20 veitingahúsum kom í ljós að vínglös voru almennt ekki með rúmmálskvarða eins og þau„eiga að vera“ og sjússamælar voru almennt hvorki með löggildingartákn, faggildingarnúmer, ártal né brúnamerki. 

Fjölmiðlar gengu af göflunum við þessi tíðindi. Svindl, svindl, veitingahús eru ekki með löggilta sjússamæla.

Nú veit Vefþjóðviljinn ekki hvort það hefur stöðvað einhvern kráargest í því að fá sér tvöfaldan brennsa í kók að hann sá hvorki tákn, númer, tal né merki á sjússamæli. Líklega gera flestir utan Neytendastofu sér grein fyrir að jafnvel þótt slíkir mælar væru stimplaðir í bak og fyrir af löggildingarstofum og væru jafnvel með „faggildingu“ að auki þá eru aðrar leiðir til að svindla á drykkjumönnum kjósi kráareigendur að gera slíkt.

Og auðvitað er það ekki þannig að þótt mál séu ekki með löggildingarstimpil að þau séu þar með röng. Í flestum tilvikum eru þau bara hárrétt og í þeim tilvikum sem þau eru það ekki þá geta þau allt eins hallað á barinn. Við löggildingu er kostnaður og það er eðlilegt að vertinn og viðskiptavinir hans ákveði hvort þörf er á henni. Þetta er ekki mál sem kallar á opinbert eftirlit. Ef það er viðskiptavinum kappsmál að drekka úr löggiltum mæliglösum mun einhver barinn væntanlega auglýsa: Leikur í meistaradeildinni á risaskjá og tilboð á köldum úr krana í löggiltum krúsum. Víking löggylltur – léttöl.