Vefþjóðviljinn 29. tbl. 17. árg.
Þessi misserin er Reykjavíkurborg að bjóða borgarbúum bláa ruslutunnu til viðbótar við þá svörtu sem gegnt hefur hlutverki sínu með prýði undanfarna áratugi. Er það gert í nafni umhverfisverndar. Sorptunnur virðast því undanþegnar því almenna boðorði í umhverfisverndinni að hemja neysluna og kaupa ekki tvo hluti þegar einn dugar og alls ekki hluti úr plasti sem unnið er úr jarðolíu. Neysla á sorptunnum úr plasti virðist góð fyrir umhverfið. Markmið borgarinnar er að bæta tugþúsund óþörfum plasttunnum við í garða og sorpgeymslur borgarbúa.
Nýja bláa tunnan ætluð undir pappa.
Sérstakur sorpbíll mun koma og tæma hana. Fleiri sorpbílar en þörf er á virðast einnig undanþegnir græna boðorðinu um að gæta stillingar í neyslunni og nota alls ekki fleiri bíla en ítrasta þörf krefur. Umhverfisverndarsinnar hvetja fólk til að samnýta bíla en sorpið er undanþegið þeirri predikun.
Sérstaki sorpbíllinn ekur með pappann í böggunarstöð þar sem hann er búinn undir ferðalag út í heim. Almennt eru ferðalög illa séð af umhverfissinnum nema þegar mikilvægar ráðstefnur í Ríó, Balí og Kyoto eru í boði. Verðlaust sorp er einnig komið með undanþágu.
Úti í heimi er pappinn tekinn til endurvinnslu með þeirri orku og efnameðhöndlun sem til þarf.
Vefþjóðviljinn sér ekki í fljótu bragði að þetta stúss með pappann sé „umhverfisvænna“ en að láta pappann fljóta með öðru sorpi á haugana. Ekki er vitað til þess að borgaryfirvöld hafi sýnt fram á að þetta umstang sé umhverfisvænt, þau virðist bara gera ráð fyrir því að endurvinnsla sé góð fyrir umhverfið, hvað sem til þarf.
Það er hins vegar til ágætur mælikvarði á það hvenær verðmætum auðlindum er sólundað. Hann heitir kostnaður. Ef kostnaður við að flytja pappa til endurvinnslu er hærri en að urða hann með öðru sorpi er það vegna þess að endurvinnslan útheimtir meira af verðmætum – og takmörkuðum myndi einhver bæta við – auðlindum jarðar en urðunin.