Vefþjóðviljinn 28. tbl. 17. árg.
Það þarf ekki að segja lesendum Vefþjóðviljans að Icesave-málið kallar á mikla umfjöllun. Til þess er vonandi nægur tími. Í dag eru forsvarsmenn ríkisstjórnar, fréttamenn þeirra og fræðimenn auðvitað uppteknir við umræðustjórn og rústabjörgun, en óþarfi er að láta það hindra sig í því að ræða aðalatriði þessa máls vandlega á komandi vikum og mánuðum.
Í dag mun Vefþjóðviljinn láta sér nægja að hugsa um örfáa hluti.
• Niðurstaðan í dag er sigur íslenskra skattgreiðenda í bráð og lengd. Margir lögðu hönd á þann plóg, sumir með því einu, sem ekki má vanþakka því það réði auðvitað úrslitum, að mæta á kjörstað í tvígang og greiða atkvæði gegn þeirri ánauð sem forystumenn vinstriflokkanna reyndu af öllum mætti að hengja á íslenska skattgreiðendur. Aðrir börðust í málinu árum saman. Forysta Framsóknarflokksins, ekki síst Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson, barðist eftir bestu getu af heilindum, þótt reynsluleysi hafi auðvitað háð henni og ábyrgð Sigmundar á því að koma Icesave-stjórninni til valda sé ótvíræð. Hjá þingflokki sjálfstæðisflokksins mæddi efnisbaráttan mest á Birgi Ármannssyni, rétt eins og í stjórnarskrármálinu nú. Óháð samtök urðu til, Indefense og Advice, og lögðu mikið af mörkum, ungir sjálfstæðismenn börðust af krafti og þannig mætti áfram telja.
• Og ekki síst skal nefna það, sem álitsgjafar vinstrimanna munu í dag sameinast um að gleyma. Morgunblaðið, sem barðist af miklum þunga alveg frá haustinu 2009, og skipti verulegu máli.
• En forseti Íslands? Jú, auðvitað geta menn haft sína skoðun á því hvað hafi ráðið ákvörðunum hans í málinu og svo því hvaða heimild forseti hefur persónulega til lagasynjunar, en að því sögðu þá verður Ólafur að sjálfsögðu eins og allir aðrir að fá að eiga það sem hann á. Án hans gjörða hefði málið þróast á annan og miklu verri veg. Þarna reyndist hann vel.
• Hinu megin víglínunnar virtist við ofurefli að etja. Fréttastofa Ríkisútvarpsins fór hamförum, Fréttablaðið lá ekki á liði sínu, dreift óumbeðið á annað hvert heimili í landinu, ríkisstjórnin brýndi sitt lið og boðaði algera einangrun landsins ef ekki yrði farið að vilja hennar, þingmeirihlutinn óð hvað eftir annað í foraðið fyrir ráðherrana, háskólaprófessorar boðuðu Kúbu norðursins, álitsgjafar og pistlahöfundar sögðu að Ísland yrði að vera þjóð meðal þjóða og borga alla landsframleiðslu sína til erlendra ríkja án þess láta reyna á rétt sinn. Og eins og þetta væri ekki nóg, þá sendi Vigdís Finnbogadóttir frá sér yfirlýsingu daginn fyrir síðari Icesave-kosninguna. Til að tryggja að það færi ekki fram hjá neinum var hún síðan spiluð aftur og aftur í útvarpsauglýsingum í lestri Arnars Jónssonar leikara.
• Þegar forseti Íslands sagðist í annað sinn hafa synjað Icesave-lögum staðfestingar voru forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar nær mállausir af reiði. Steingrímur J. Sigfússon náði þó að segjast vera „forundrandi“. Ríkisútvarpið á þetta allt á bandi og mun endursýna margsinnis.
• Það segir meira en mörg orð um hug vinstrimanna í málinu að þeir fóru skipulega í það að finna mótframbjóðanda gegn forseta Íslands síðastliðið sumar. Höfðu þeir þó fram að því stutt hann skilyrðislaust. En forsetinn hafði í tvígang brugðið fyrir þá fæti og því þurfti „betri valkost á Bessastaði“.
• En þó fréttir dagsins séu ánægjulegar, þá er auðvitað galli á gjöf Njarðar. Þingmaður Samfylkingarinnar sagði til dæmis á þingi að Íslendingar ættu að taka á sig Icesave-ánauðina, til að „kenna börnunum okkar mannasiði“. Og var hann þá ekki að tala um Icesave III, sem var þó skárri en hinir. Nú eru allar líkur á því að „börnin okkar“ verði af þeirri mannasiðakennslu sem þingmaðurinn vildi að þau fengju. Prófessor einn, hátíðlegur álitsgjafi í Ríkisútvarpinu, vildi einnig að Íslendingar tækju á sig sem þyngstar byrðar, því þeir myndu finna fyrir þeim lengi og læra af því að haga sér eins og menn. Þessir menn eru líklega vonsviknir í dag.
• Gaman verður að fylgjast með fréttaskýringaþáttunum á næstu vikum. Þar verða endurspilaðir fræðimennirnir, Evrópusinnarnir, hákarlanir, Kúbumennirnir, einangrunarkenningarsmiðirnir, ráðherrarnir, þingmennirnir, þórólfarnir, gylfarnir og allir hinir. Að ógleymdum stjórnarþingmönnunum sem þrívegis samþykktu Icesave-kröfurnar og urðu bálreiðir þegar efnt var til kosningar um málið.
• Þegar forseti Íslands tilkynnti að hann hefði synjað fyrri Icesave-lögunum staðfestingar krafðist þingmaður Samfylkingarinnar þess opinberlega að forsetinn segði af sér. Ætli þingmaðurinn sé ekki enn reiður yfir því að ekki hafi verið orðið við því?
• Spuni dagsins byrjaði strax hjá Össuri Skarphéðinssyni, eins og engum þarf að koma á óvart. Össur lagði allt upp úr því að lögmaður Íslands hefði unnið lögfræðilegt kraftaverk. Jafnvel á sigurstundu Íslands geta ráðherrarnir ekki viðurkennt að málstaðurinn sigraði. Þetta þarf að vera sigur einhvers lögmanns, sem vann „lögfræðilegt kraftaverk“ með því að sigra með slíkan málstað. Sá málstaður getur varla verið mjög góður, sem ekki sigrar nema fyrir lögfræðilegt kraftaverk einhvers ofurmennis.
• Hvað ætli fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi oft notað orðalagið „Icesave-skuldin“, þegar rætt var um kröfur Breta og Hollendinga? Á sama tíma og yfirlætislegir áróðursmenn létu dynja á Íslendingum að þeir yrðu að „standa við skuldbindingar okkar“ ef þeir ætluðu að vera „þjóð meðal þjóða“? Var þó aldrei nein skuld fyrir hendi, eins og oft var reynt að benda fréttamönnum á.
• Þessi þriðjungur sem vinstriflokkanir og fréttamenn þeirra fengu til að styðja Icesave-III, er það ekki svipað hlutfall kjósenda og kom á kjöstað síðasta haust til að styðja stjórnarskrártillögur vinstriflokkanna? Og ætli það geti ekki verið að þessir tveir hópar, þeir sem sögðu já við Icesave og þeir sem studdu tillögur „stjórnlagaráðs“ í „ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslunni“, skarist ótrúlega mikið?.