Vefþjóðviljinn 19. tbl. 17. árg.
Í gær lagði Vefþjóðviljinn út af þeim orðum Arnars Guðmundssonar aðstoðarmanns fjármálaráðherra og frambjóðanda Samfylkingarinnar í Reykjavík að stjórnmálaflokkar ættu að skila styrkjum frá Landsbanka Björgólfsfeðga og fyrirtækjum sem Jón Ásgeir Jóhannesson tengdist á árinu 2006. Arnar telur að flokkar sem ekki hafa skilað hverri krónu af slíkum styrkjum gangi til þingkosninga nú í vor með óhreina peninga á reikningum sínum.
Samfylkingin hefur ekki skilað styrkjum frá þessum fyrirtækjum en það er Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar að gera jafnt og þétt. Samfylkingin hlaut styrki árið 2006 sem voru margfalt hærri en þær 300 þúsund krónur sem hún var á sama tíma að leiða í lög að ætti að vera hámark á slíkum styrkjum. Meðal annars styrk frá Landsbankanum sem er nær þrítugfalt hærri en Samfylkingin leiddi sama ár í lög sem hámarksstyrk.
Arnar hlýtur að halda fyrir nefið á framboðsmyndum fyrir Samfylkinguna í vor ef flokkurinn verður ekki búinn að skila þeim tugum milljóna sem hann þáði frá Landsbankanum og Baugsfélögum árið 2006.
Og Arnar er ekkert að gaspra út í loftið þegar hann tjáir sig um siðsemi þess að þiggja ríflegar greiðslur frá Landsbankanum fyrir hrun. Hann þekkir þar vel til sem fyrrum starfsmaður.