Vefþjóðviljinn 10. tbl. 17. árg.
Nú er eiginlega ekki annað hægt en að vorkenna atvinnuvega- og nýsköpunarráðherranum.
Hann er rétt búinn að veita tveimur fyrirtækjum leyfi til rannsókna, tilraunaboranna og vinnslu á Drekasvæðinu.
Enginn myndi sækja um leyfi til rannsókna og tilraunaboranna nema eygja von um vinnslu.
Þetta er gert með viðhöfn að viðstöddum olíumálaráðherra Noregs.
Eða eins og segir í tilkynningu frá Orkustofnun, sem heyrir undir atvinnuvegaráðherrann:
Orkustofnun hefur í dag, að viðstöddum olíumálaráðherra Noregs, Ola Borten Moe og Steingrími J. Sigfússyni atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, gefið út tvö sérleyfi fyrir rannsóknir og vinnslu kolvetnis (olíu og gass) á Drekasvæðinu.
Þá byrja þeir að góla í villta vinstrinu og ráðherrann fer að draga í land og vefengja leyfin sem hann var að veita nokkrum klukkustundum áður. Það sé allt óvíst um vinnslu þegar þar að komi. Menn vilji sjá hvað er að þarna að finna og taka svo ákvörðun um vinnslu.
Það er kunnara en frá þurfi að segja svo skömmu eftir jól að margir vilja kíkja í pakkana sína. En það er af því að þeir eiga von á einhverju góðu. Steingrímur er hins vegar alltaf að kíkja í einhverja pakka sem hann kærir sig ekki um.