Vefþjóðviljinn 9. tbl. 17. árg.
Undanfarin ár hafa verið sagðar fjölmargar fréttir af ákaflega slæmri fjárhagsstöðu Hafnarfjarðarbæjar. Hefðu þær ekki átt að fara fram hjá neinum, en samt mun lítill hópur manna hafa komist hjá því að frétta af málinu.
Þessi hópur manna situr í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Allir aðrir vita að Hafnarfjarðarbær verður að spara, spara og spara. Skera niður, skera niður.
Í gær var sagt frá því að Hafnarfjarðarbær hefði ákveðið að „hlaupa undir bagga með Knattspyrnufélaginu Haukum vegna slæmrar fjárhagsstöðu félagsins og kaupa íþróttamannvirki þess fyrir rúmar 270 milljónir króna.“
Hvernig væri nú að fara að losa skattgreiðendur undan þessari áþján? Hvernig væri nú að sameinast um þá stefnu að íþróttir og leiki stundi menn á eigin kostnað en ekki samborgara sinna? Það myndi spara skattgreiðendum í landinu ótrúlegar fjárhæðir, sem aftur ætti að verða til þess að skattar og útsvar verði lækkuð verulega, sem aftur myndi þýða að hinn almenni maður hefði meira milli handanna.
Flest sveitarfélög í landinu eru gríðarlega skuldsett. Það er auðvitað vegna þess að sveitarstjórnarmenn telja sig vera undir hælnum á þrýstihópunum og þora ekki öðru en að reisa stúkur og leggja hlaupabrautir, borga kórferðalög og styrkja leiksýningar, til að halda öllum góðum.
Nema almennum skattgreiðendum. Sveitarstjórnarmennirnir treysta á að hver og einn skattgreiðandi hugsi meira um að sækja fé til eigin áhugamáls en að verjast ásókn allra hinna.