Vefþjóðviljinn 344. tbl. 16.árg.
Allt frá bankahruninu haustið 2008 hafa nokkrar meinlokur skotið upp kollinum hvað eftir annað í þjóðfélagsumræðunni. Í umræðunni er rugli gjarnan hampað og hver étur misskilning upp eftir öðrum. Þeir sem reyna að útskýra hlutina fyrir meinlokumönnum fá yfirleitt yfir sig upphrópanir og persónulegar svívirðingar.
Meðal þess sem meinlokumönnum hefur orðið hugstætt er löngu aflögð ríkisstofnun sem nefnd var Þjóðhagsstofnun. Getur ekki verið að ef einmitt sú stofnun hefði verið enn starfandi að þá hefðu bankarnir ekki farið á hausinn og skuldað tugþúsundir milljarða í erlendum bönkum? Var Þjóðhagsstofnun ekki einmitt lögð niður í skyndi þegar ráðamönnum líkuðu ekki spárnar hjá fagmönnunum þar?
Nei, reyndar er hvort tveggja algerlega rangt, þótt oft megi heyra einhvern spekinginn gefa annarri hvorri kenningunni undir fótinn.
Nú hefur verið lagt til á þingi að stofnuð verði ný opinber stofnun, „Þjóðhagsstofa“, sem starfi í sama anda og Þjóðhagsstofnun gerði áður. Viðskiptablaðið segir frá því að Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur og forseti Alþýðusambands Íslands, andmæli þeirri hugmynd. „Fyrir okkur sem störfuðum með Þjóðhagsstofnun munum e.t.v. betur eftir því að stofnunin var aldrei ,,óháð“ í sínum störfum”, hefur Viðskiptablaðið af vefsíðu Gylfa. Og Gylfi bætir við:
Hún var verkfæri ríkisstjórnar og heyrði undir forsætisráðherra. ASÍ gat aldrei treyst því að lögbundið hlutverk hennar að reikna út valkosti í hagstjórn væri trúnaðarmál gagnvart ráðherranum.
Forseti ASÍ er með öðrum orðum ekki einn af þeim sem sakna Þjóðhagsstofnunar.
Þjóðhagsstofnun hefur, áratug eftir löngu tímabæra niðurlagningu sína, orðið stórlega ofmetið fyrirbrigði. Spilar þar eflaust inn í löngun margra til að koma sök á óförum bankanna annað en þangað sem hún á heima. En það hefði engu breytt um bankahrunið þótt ríkisstarfsmennirnir hjá Þjóðhagsstofnun hefðu haldið þar áfram. Erlend matsfyrirtæki, sem allt fjármálakerfi Vesturlanda treysti fullkomlega og byggir raunar enn á að verulegu leyti, töldu íslensku bankana hina allra bestu lántaka. Allir þeirra reikningar voru endurskoðaðir af virtustu endurskoðunarfyrirtækjum. Íslenska fjármálaeftirlitið, FME, með allar sínar heimildir, taldi þar ekki maðk í mysunni. Stærstu bankar Evrópu, með alla sína sérfræðinga og greiningardeildir, lánuðu þeim íslensku þúsundir milljarða á þúsundir milljarða ofan, og töldu víst að þeir fengju allt til baka með gróða. Þeir töpuðu þúsundum milljarða á lánunum. Alþjóðleg kreppa og bankahrun kom öllum þessum aðilum í opna skjöldu.
En þegar bankakreppa hefur riðið yfir Vesturlönd og stóru íslensku bankarnir þrír meðal annars farnir í þrot, þá halda íslenskir umræðuspekingar að það hefði sennilega breytt öllu ef Þjóðhagsstofnun hefði starfað áfram.
Og núverandi íslensk stjórnvöld, sem níða aðra óspart niður fyrir að hafa ekki séð allt fyrir og vilja rannsaka allt nema eigin störf, þau töldu í upphafi valdaferils síns að snjallasta ráð Íslendinga væri að gerast evruríki. Nú vill varla nokkurt ríki vera evruríki, evruríkin flest meðtalin.
En var Þjóðhagsstofnun ekki lögð niður með hraði árið 2002vegna einhverrar óvinsællar spár? Nei auðvitað ekki, eins og margsinnis hefur verið útskýrt án þess að meinlokumennirnir hverfi frá trú sinni.
Ætli nokkurt gagn sé af því að reyna að segja mönnum söguna einu sinni enn?
Árið 1953 var Framkvæmdabanki Íslands stofnaður og má rekja sögu Þjóðhagsstofnunar til hans, og þess að efnahagsmálaráðuneyti var stofnað árið 1960, enda gegndu þessar stofnanir svipuðu hlutverki og Þjóðhagsstofnun síðar. Árið 1962 var Efnahagsstofnun svo sett á laggirnar og tók við af hinum tveimur. Efnahagsstofnun var svo lögð niður árið 1972 þegar ný stofnun, Framkvæmdastofnun ríkisins, tók við hlutverki hennar. Þetta var kannski hefndarráðstöfun vegna þess að Efnahagsstofnun sýndi stjórnvöldum árið 2002 ekki næga fylgispekt. Enn var hoggið í sama knérunn tveimur árum síðar, árið 1974, þegar stjórnvöldin árið 2002 fluttu verkefnin yfir til Þjóðhagsstofnunar og hefndu sín þannig á Framkvæmdastofnun – svona ef reynt er orða hlutina í samræmi við hugarheim áköfustu gjammara íslenskrar þjóðfélagsumræðu nú um stundir.
Þegar Þjóðhagsstofnun hafði starfað í níu ár var samið frumvarp, vafalaust að undirlagi ríkisstjórnarinnar sem sat rúmum áratug síðar, um að stór hluti starfsemi Þjóðhagsstofnunar yrði fluttur til forsætisráðuneytisins og annar hluti til Hagstofunnar. Árið 1985 fór frumvarpið fyrir Alþingi, en varð ekki að lögum. Tveimur árum síðar var aftur reynt að leggja Þjóðhagsstofnun niður með ályktun sem samþykkt var á Alþingi. Enn leið ár og þá, árið 1988, voru verkefni flutt frá Þjóðhagsstofnun til fjármálaráðuneytisins. Enginn þarf að efast um að allt þetta var að undirlagi ríkisstjórnarinnar árið 2002. Og ári síðar, árið 1989, var í kjölfar nefndarstarfs á vegum ríkisstjórnarinnar lagt fram frumvarp á Alþingi um Þjóðhagsstofnun og skyld mál. Ef tekist hefði að ljúka umræðum um það, hefði það haft í för með sér að Þjóðhagsstofnun hefði verið lögð niður. Í þeirri stjórn sátu meðal annarra hinir merku stjórnmálamenn Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Leikurinn endurtók sig árið 1991- og nú er Vefþjóðviljinn hættur að hafa tölu á því hversu oft var búið að reyna að leggja niður Þjóðhagsstofnun – því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem starfaði árin 1991 til 1995 ætlaði að færa hluta verkefna Þjóðhagsstofnunar til Hagstofunnar og láta hana vinna önnur verkefni í meiri tengslum við forsætisráðuneytið. Ekki tókst, frekar en oft áður, að ná fram þessum breytingum. Jóhanna Sigurðardóttir kannast auðvitað ekkert við þessi áform, enda sat hún í þessari ríkisstjórn og var þess vegna alls ókunnugt um stefnu hennar. Þessi aðför að Þjóðhagsstofnun var þess vegna án vafa einnig á ábyrgð þeirrar ríkisstjórnar sem sat árið 2002. Nokkrum árum síðar, í mars árið 2000, tilkynnti forsætisráðherra að reynt yrði að endurskipuleggja starfsemi Hagstofu og Þjóðhagsstofnunar. Þessari vinnu lauk svo rúmum tveimur árum síðar með því að um mitt ár 2002 skiptu efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins og Hagstofan með sér verkefnum Þjóðhagsstofnunar, sem þá tókst loks að leggja niður eftir linnulitlar tilraunir nokkurra ríkisstjórna allra flokka í tæpa tvo áratugi.
Þeir sem lesa þessa löngu lýsingu á sögu Þjóðhagsstofnunar og forvera hennar og öllum þeim tilraunum sem gerðar voru til að leggja hana niður, sjá greinilega að það var ekki skyndiákvörðun neinnar ríkisstjórnar að leggja stofnunina niður. Staðreyndin er einfaldlega sú, eins og þingmenn og ríkisstjórnir höfðu augljóslega áttað sig á um áratugaskeið, að Þjóðhagsstofnun hafði engu hlutverki að gegna sem réttlætti tilvist hennar. Það eru algerar rangfærslur að hún hafi verið lögð niður með skyndiákvörðun. Það var þvert á móti búið að ræða það áratugum saman að leggja stofnunina niður og vinna að því á mörgum kjörtímabilum. Lokavinnan tók tvö ár.
En þjóðtrúin verður líklega jafn lífseig hér og í svo mörgu öðru er tengist bankahruninu og stjórnmálaatburðum síðustu ára og áratuga.