Helgarspokið 2. desember 2012

Vefþjóðviljinn 337. tbl. 16.árg.

Það hefur lengi verið eitt meginatriðið í gagnrýni austurrísku hagfræðinnar á hefðbunda hagstjórn á Vesturlöndum og víðar að seðlabankar ríkisvaldsins brengli öll skilaboð á markaði með tilraunum sínum til að stýra vöxtum og peningamagni. 

Fyrr á árinu birtist þýðing á grein eftir Mark Spitznagel á vef Landsbankans þar sem þessu sjónarmiði eru gerð ágæt skil. Þar leggur Spitznagel út af Undirstöðunni (Atlas Shrugged) sem nýlega kom út í íslenskri þýðingu og fæst í Bóksölu Andríkis.

Rand lagði meiri áherslu en flestir aðrir á mikilvægi hvata til að ýta undir nýsköpun frumkvöðla og nauðsynlega áhættusækni. Ef hvatarnir eru skornir af,og geta markaðarins til að sýna það með verðlagningu er takmörkuð, þá sveltirðu vaxtarhreyfillinn af eldsneyti. Því miður er það þannig að seðlabankamenn líta greinilega fram hjá þessari staðreynd þegar þeir ráðskast með vaxtastig og auka peningamagn.

Vextir eru meira en bara þáttur í hagkerfinu sem ákveður magn sparnaðar og fjárfestingar. Vextirnir endurspegla miklu frekar en móta, rétt eins og austurríski hagfræðingurinn Ludwig von Mises benti á, viðhorf til samtímans – þrána eftir því að njóta strax, fremur en í framtíðinni.

Vaxtastigið er því hvetjandi og miðlar til frumkvöðla hvernig eigi að ráðstafa fjármunum í tímans rás. Til dæmis gera lægri vextir og fjármagnskostnaður, sjóðstreymi í framtíðinni meira aðlaðandi og þannig aukast fjárfestingar. Þetta eru eðlileg viðbrögð kerfisins við vaxandi sparnaði og minni neyslu.

Afskipti stjórnvalda af vöxtum hefur þó ekki áhrif á hvernig fólk ver tíma sínum, þó þau feli í sér merki um að breyting sé yfirvofandi. Ósamræmið sem af því leiðir veldur afbökun, því rétt eins og alltaf þegar verðstýring er annars vegar, veldur hún því að fjármunir streyma í fjárfestingar sem samræmast ekki raunverulegu framboði og eftirspurn.

Hér á landi reyndu menn nýlega að dulbúa þá staðreynd að hið opinbera er að ráðskast með vaxtastigið með því að klæða fiktið í fræðilegan búning. Til þess var sett á legg „vaxtastefnunefnd“ eða öllu heldur verðlagsnefnd fjármagns þar sem menn sitja alvarlegir í bragði og þykjast hafa hugmynd um framboð og eftirspurn eftir fjármagni. 

Seðlabankinn reynir leynt og ljóst að brengla hvatakerfið, sérstaklega þau merki sem felast í verði á peningum, en það leiðir til vondra fjárfestinga (og þegar opinberar skuldir eru peningavæddar leiðir það til verðbólgu). Það að verðlauna,óarðbærar fjárfestingar og spákaupmenn sem aðhyllast fámennisstjórnun og gera ráð fyrir að Seðlabankinn hafi útilokað áhættu getur haldið áfram í einhvern tíma. En eins og Rand minnir á, það kemur að því að leiknum lýkur.

Í dag, eftir stærstu útlánaþenslu sögunnar, hefur þeim punkti augljóslega verið náð. Sljótt fjármagn hundsar nú svikular vísbendingar á markaði og sala á vondum fjárfestingum seytlar um kerfið en ákvarðanir fólks taka ekki mið af staðreyndum.

Ríkið getur einfaldlega ekki, til lengri tíma litið, stýrt því að frumkvöðlar láni, taki lán og fjárfesti. Fjármagnið mun óhjákvæmilega yppta öxlum þegar við blasir að ráðskast er með frjálsa markaði með þrúgandi hætti. Þegar slíkt gerist birtast raunverulegar afleiðingar slakrar peningamálastefnu, ekki aukin efnahagsleg umsvif. Eðlileg virkni hagrænnar samræmingar og aðlögunar er þvert á móti eyðilögð og kerfið rænt þrautseigjunni. Í raun hefur peningamálastefnan „drepið á hreyfli heimsins“.