Vefþjóðviljinn 331. tbl. 16. árg.
Eftir prófkjör og kjördæmisráðsfundi þriggja flokka um helgina og síðustu vikna hafa álitsgjafar og fréttamenn otað hljóðnemum hver að öðrum og metið stöðuna.
Að vissu leyti má segja að niðurstöður flokkanna sendi misvísandi skilaboð. Menn geta sagt að úrslit sýni að kjósendur vilji frambjóðendur sem synda gegn straumnum, eru trúir eigin sannfæringu og láta ekki gera skoðanakannanir áður en þeir ákveða næsta skref. Í nýlegum prófkjörum hefur þjóðkunnum mönnum í þá veru, eins og Brynjari Níelssyni gengið mjög vel. Einnig hafa ýmsir aðrir skeleggir frambjóðendur náð vænlegum sætum.
En menn geta alveg eins sagt að kjósendur vilji einmitt fá stjórnmálamenn sem aldrei setja fram skýra persónulega afstöðu heldur tala í frösum og forðast dagleg stjórnmálaátök eins og þeir geta, en Katrín Jakobsdóttir sigraði glæsilega í prófkjöri vinstrigrænna í Reykjavík.
Meðal þess sem hefur orðið mönnum að umræðuefni eftir prófkjörin, er þátttakan. Hún er dræmari en oft áður. Þeir sem hafa „vantraust á stjórnmálum“ á heilanum taka það auðvitað sem enn eina staðfestingu þess að enginn „treysti alþingi“, og að sjálfsögðu telja þeir alla sök á því vantrausti liggja hjá alþingi en enga hjá þeim sem fyrirferðarmestir eru í opinberri umræðu um stjórnmál.
Skýringarnar á því að kjörsókn er dræmari en oft áður, eru hins vegar mun fleiri. Ein er sú, að flestallir frambjóðendur hafa verið mjög sparsamir í kosningabaráttu sinni. Meðal þess sem lýðskrumurum hefur tekist á síðustu árum er að koma óorði á þá sem kosta einhverju til kosningabaráttu sinnar. Auðvitað má segja að að nokkrar frægar prófkjörsherferðir eigi þar einnig hlut að máli, þar sem tugum milljóna króna var varið til að koma einum frambjóðana að á kostnað annars, en meira máli skiptir líklega lýðskrumsáróður síðustu ára gegn peningum. Vegna hans vilja margir prófkjörsframbjóðendur alls ekki láta það um sig spyrjast að þeir geti safnað framlögum meðal stuðningsmanna sinna.
Auglýsingum er stillt í mun meira hóf en áður. Kosningaskrifstofur eru færri en oft áður, opnaðar seinna og minna gert þar. Fáir gefa út bæklinga. Aðeins fáir frambjóðendur standa fyrir stórfelldum hringingum í kjósendur, en slíkar herferðir geta verið mjög kostnaðarsamar. Þetta hefur auðvitað sín áhrif. Stundum reyna frambjóðendur að efla til stórfelldrar smölunar inn í flokk sinn, til að afla liðs í baráttunni. Aðrir skrá sig inn ótilkvaddir til að styðja tiltekinn frambjóðanda eða jafnvel til að koma höggi á annan. Eru síðan á flokksskránni þótt þeir hafi engan sérstakan áhuga á næsta prófkjöri. Stundum verður mikil spenna í landinu vegna einhvers prófkjörseinvígis. Margir utan Sjálfstæðisflokksins urðu spenntir þegar reynt var að bola Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra úr forystu Sjálftstæðisflokksins og sá spenningur smitaði auðvitað út frá sér með nýskráningum og mikilli kjörsókn. Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins nú var til dæmis engin slík spenna, en allir vissu hver yrði í fyrsta sæti og var jafnvel búist við stærri sigri þar en raun varð á.
Með öllu þessu er ekki sagt að frambjóðendur hafi almennt verið óspennandi. Að vissu leyti eru frambjóðendur eins og varningur og nýjan varning þarf yfirleitt að kynna. Ef menn opna sjónvarp þá sjá þeir margar auglýsingar á dag um nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar. Allir vita að komin er ný bók eftir hann. Flestir hafa lesið einhverja bóka hans. Samt þykir útgefandanum nauðsynlegt að auglýsa hann af krafti strax í nóvember. Auglýsingar hafa einfaldlega áhrif, og þegar flestir eða allir frambjóðendur reyna að spara sem mest þeir mega, þá vekur prófkjör minni athygli og kjörsókn verður minni. Það segir ekkert um „vantrú á flokkunum“.
Ef sú vantrú væri í raun mikil, þá hefðu menn flykkst á staðinn til að henda út flokksjálkunum. Það gerðu þeir alls ekki. Hjá vinstrigrænum sigruðu ráðherrarnir Katrín, Svandís og Ögmundur. Hjá Samfylkingunni sigraði Össur Skarphéðinsson í Reykjavík og í suðvesturkjördæmi voru Árni Páll Árnason og Katrín Júlíusdóttir endurkjörin í fyrsta og annað sæti. Í norðvesturkjördæmi stillir Sjálfstæðisflokkurinn upp Einari K. Guðfinnssyni. Í Reykjavík sigraði Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, borgarstjóri og forseti borgarstjórnar. Í suðvesturkjördæmi sigraði Bjarni Benediktsson með miklum mun þrátt fyrir mótframboð sem opinberlega snerist um Bjarna persónulega og vegið var að heilindum hans og heiðarleika. Enginn annar frambjóðandi í prófkjörum síðustu vikna hefur mátt þola slíkt. Engu að síður vann Bjarni yfirburðasigur, þó andstæðingar hans innan og utan fréttastofu Ríkisútvarpsins hafi síðan reynt að túlka þann sigur sem ósigur. Allir þingmenn sem leitað hafa endurkjörs hafa fengið mjög vænleg sæti, nema Björn Valur Gíslason, Lúðvík Geirsson og Mörður Árnason. Þeir hafa setið manna styst á þingi. Brottfall þeirra er ekki ákall um breytingar, þegar ráðherrar og fyrrverandi ráðherrar skipa öll efstu sæti.
Ekkert í prófkjörsúrslitum síðustu vikna er ákall um miklar breytingar. Kjósendur hafa valið festu án stöðnunar, eðlilegar breytingar en engar byltingar.