Vefþjóðviljinn 326. tbl. 16. árg.
Sigríður Á. Andersen hefur á heimasíðu sinni sett upp reiknivélina Vasareikninn. Þar geta menn séð hvað þeir bera í raun úr býtum þegar þeir bæta við sig útseldri vinnu, hvað þeir fá í vasann.
Vinnandi fólk getur lent í því að auka ráðstöfunartekjur sínar aðeins um 2.500 krónur við það að selja út vinnu sína fyrir 10 þúsund krónur. Hinar 7.500 krónurnar fara í virðisaukaskatt, tryggingagjald, iðgjöld í sameignarsjóð, tekjuskatt og bótaskerðingu. Þetta óæskilega samspil skatta- og bótakerfa hefur stundum verið nefnt jaðaráhrif.
Hjúskaparstaða, tekjur, eignir, skuldir, vaxtagjöldum og fjölskyldustærð hafa áhrif í þessu dæmi. Það er búið að tengja marga þætti saman sem flækir kerfið gríðarlega. Auk þess sem hér er tekið með í reikninginn eru afborganir námslána tekjutengdar, svo dæmið getur litið jafnvel enn verr út.
Rætt var við Sigríði í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær um þetta framtak og hvað væri til ráða til að leysa úr þessari flækju og draga úr jaðaráhrifum.