Laugardagur 10. nóvember 2012

Vefþjóðviljinn 315. tbl. 16. árg. 

Í lok maí 2008 skrifaði Vefþjóðviljinn um fasteignamarkaðinn, sem var þá nær líflaus, enda bankarnir nær hættir að lána til íbúðarkaupa. Vefþjóðviljinn varaði við því að stjórnvöld gerðu tilraun til blása lífi í markaðinn eða reyndu að viðhalda verðbólunni sem myndast hafði árin þar á undan.

Fasteignasalar vilja að ríkið helli ótakmörkuðu fjármagni út á markaðinn í gegn um Íbúðalánasjóð til að kveikja bálið á ný. Jóhanna Sigurðardóttir virðist að einhverju leyti vera höll undir þá skoðun. Sú sama Jóhanna hefur reyndar ítrekað lýst áhyggjum sínum af því að erfitt sé fyrir ungt fólk að koma sér upp þaki yfir höfuðið vegna þess hversu hátt fasteignaverð er orðið. Líklega er farsælasta leiðin sú að leyfa þessari verðbólu að dragast saman og láta markaðinn um að ná eðlilegu jafnvægi.

En Vefþjóðviljanum varð ekki að ósk sinni. 

Í júní 2008 ályktuðu Neytendasamtökin og fögnuðu breytingum á útlánareglum Íbúðalánasjóðs þar sem hámarkslán voru rýmkuð og leyfileg veðsetning aukin.

Samtökin telja þetta sýna að full þörf er fyrir Íbúðalánasjóð á lánamarkaði og hefur hann nú vonandi endanlega sannað gildi sitt.

Þeir sem létu ginnast af þessum nýju lánum frá Íbúðalánasjóði sumarið 2008 fram að hruni, keyptu sína fyrstu íbúð eða stækkuðu við sig, hafa fengið mikinn skell. Hafi þeir lagt eigið fé í kaupin er það horfið.

Jóhanna Sigurðardóttir þáverandi húsnæðismálaráðherra ber auðvitað meginábyrgð á þessu.

Þessum ósköpum til viðbótar hefur Íbúðalánasjóður á undanförnum misserum þurft nokkra tugi milljarða í aðstoð frá skattgreiðendum, sem vel flestir eru einnig neytendur. 

Ætli Neytendasamtökin séu enn þeirrar skoðunar að Íbúðalánasjóður hafi „endanlega sannað gildi sitt“?