Mánudagur 5. nóvember 2012

Vefþjóðviljinn 310. tbl. 16. árg.

Þegar fellibylurinn Sandy, sem reyndist víst ekki fellibylur, gekk  yfir austurströnd Bandaríkjanna sögðu sjónvarpsstöðvarnar að nú hefði verið gert hlé á baráttunni fyrir forsetakosningarnar. Svo sýndu þær þrjá daga af Obama í stjórnstöðinni, Obama að ræða við sérfræðinga, Obama að faðma syrgjandi fólk, Obama að heita uppbyggingu og ríkisstjóra New York að biðja alla viðstadda að klappa fyrir Obama. Sem menn gerðu greiðlega.

Fyrir fjórum árum keppti Obama við repúblikanann John McCain. Í kosningabaráttunni gerðist það að háöldruð amma Obama lagðist banaleguna. Obama tilkynnti að hann tæki sér stutt frí frá baráttunni til að vera hjá henni. Fjölmiðlar tjölduðu fyrir utan hjá þeim og sendu linnulaust út, sýndu myndir af þeim saman, ræddu um uppvöxt Obama og fjölskylduaðstæður og það hversu náinn hann væri ömmu sinni. Skutu því einstaka sinnum inn að á meðan Obama væri hjá ömmu sinni væri McCain einn í kosningabaráttu. „Nú á John McCain sviðið“, sögðu sjónvarpsstöðvarnar og héldu svo áfram að fjalla um Obama og ömmu hans. Loks efndu þeir til umræðna um það hvort Obama myndi tapa á trygglyndinu sem hann sýndi ömmu sinni, því nú væri McCain einn um athyglina.

Auðvitað víkja önnur mál fyrir náttúruhamförum eins og ofvirði sem veldur miklu manntjóni og gríðarlegri eyðileggingu. Ekkert er við því að segja að eitthvað af athyglinni, sem náttúruhamfarirnar kalla á, lendi á forsetanum þar sem hann stendur í flíspeysunni og „stjórnar björgunarstarfinu“. En þegar fréttamenn láta eins og þeir haldi að það skipti engu máli í kosningabaráttu, þegar minna en vika er til kosninga, að sýna langar fréttir af forsetanum faðma grátandi syrgjendur, þá velta menn því fyrir sér hvort barnaskapurinn sé raunverulegur.