Helgarsprokið 4. nóvember 2012

Vefþjóðviljinn 309. tbl. 16. árg.

Gatnagerðargjöld húsbyggjenda hafa staðið undir kostnaði við almenn bílastæði í götum Reykjavíkur. Stæðin undir Hörpunni eru hins vegar baggi á skattgreiðendum.
Gatnagerðargjöld húsbyggjenda hafa staðið undir kostnaði við almenn bílastæði í götum Reykjavíkur. Stæðin undir Hörpunni eru hins vegar baggi á skattgreiðendum.

Það er stundum rætt um almenn bílastæði í Reykjavík eins og þau séu þungur baggi á borginni. Sumir borgarfulltrúar láta jafnvel þannig þótt þeir ættu að hafa forsendur til að vita betur. Er ekki rétt að notendur stæða greiði fyrir kostnað af þeim, spyrja borgarfulltrúarnir.

En hver borgaði upphaflega fyrir bílastæðin? 

Það voru húsbyggjendur, greiðendur gatnagerðargjalda. Þessi gjöld stóðu undir kostnaðinum við gerð gatna og bílastæða við þær. Almennt litu menn svo á að bílastæðin fylgdu húsunum við göturnar og eigendur og gestir þeirra eða viðskiptavinir gætu lagt þar án frekari gjaldtöku því þeir hefðu þegar greitt stofnkostnað við þau. Síðan eru á hverju ári lögð fasteignagjöld á húseigendur, sem hafa staðið undir öllu viðhaldi á viðkomandi götum og bílastæðunum sem eru hluti af þeim.

Það hefur ekki hvarflað að nokkrum manni að með greiðslu gatnagerðargjaldanna og árlegra fasteignagjalda upp frá því væri hann að fjármagna og afhenda borginni bílastæði sem hún gæti upp frá því notað til tekjuöflunar. 

Í kringum 1950 var farið að setja upp stöðumæla í miðbænum í góðu samkomulagi við meirihluta húseigenda, sem voru verslunareigendur, í því skyni að halda hreyfingu á bílunum í stæðunum, svo sama fólkið legði þar ekki allan daginn og héldi þannig stæðum frá viðskiptavinum verslana og annarra fyrirtækja. Smám saman hafa stöðumælarnir breiðst út frá miðbænum, að mestu leyti í samkomulagi við viðkomandi húseigendur eða einhvers konar meirihluta þeirra. Lengst af var ekki litið á stöðumælana sem tekjuöflun fyrir borgina, heldur stæðu gjöldin undir rekstri mælanna.

Sumir segja hins vegar að borgin eigi að hafa sem mestar tekjur af stæðunum og setja upp eins hátt verð og hægt er, óháð kostnaði við reksturinn. Þá er farið að líta á stæðin, sem húsbyggjendur fjármögnuðu, sem tekjulind fyrir borgina eða einhvers konar skattstofn. Ef menn gera það, er þá ekki rétt að borgin innheimti leigu fyrir öll stæði í borginni? Til að mynda á Högunum og Teigunum þar sem mikil spurn er eftir stæðum frá kl. 17 síðdegis til 9 á morgnana?

Fylgir þá ekki slíkum tillögum jafnframt óhjákvæmilega tillaga um endurgreiðslu gatnagerðargjalda og  lækkun fasteignagjalda? 

Einnig vaknar sú spurning hvort borgarfulltrúar sem studdu byggingu neðansjávarmálsbílastæðahúss með 1800 stæðum í Hörpunni hafi í raun áhyggjur af kostnaði af nokkrum sköpuðum hlut og allra síst kostnaði við bílastæði. Allt það ævintýr mun kosta skattgreiðendur þúsund milljónir króna á ári næstu 30 árin.

Það er kannski skiljanlegt fulltrúar vinstri flokkanna láti skattgreiðendur niðurgreiða bílastæði eins og hvað annað en það hljómar fremur undarlega fyrir fulltrúa Sjálf-stæðis-flokks.