Fimmtudagur 1. nóvember 2012

Vefþjóðviljinn 306. tbl. 16. árg.

Í dag bætast tvær bækur í Bóksölu Andríkis.

Vefþjóðviljinn hefur oft vakið máls á því að mikilvægt er að skattgreiðendur eignist raunverulega málsvara á þingi, menn sem hafa sterka stjórnmálasannfæringu og skilja og styðja af einlægni þau grundvallaratriði sem best hafa reynst í frjálslyndu borgaralegu þjóðfélagi. Menn sem munu berjast af hörku fyrir grundvallarsjónarmiðum en ekki einskorða sig við tækniatriði og „betri vinnubrögð“, menn sem stjórnast af raunverulegri sannfæringu en ekki skoðanakönnunum.

Einn þeirra sem lengi hefur staðið með skattgreiðendum og barist fyrir málstað þeirra um áratugaskeið, en ekki aðeins síðustu vikurnar fyrir framboð, er Óli Björn Kárason, sem nú er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi, en hefur starfað sem blaðamaður og ritstjóri og var meðal annars stofnandi Viðskiptablaðsins á sínum tíma. 

Nýlega kom út bókin Manifesto hægri manns og geymir hún úrval greina Óla Björns frá síðustu árum, og kemur hann víða við. Óli Björn fjallar um atvinnu- og viðskiptalífið, ríkisfjármál, efnahagsmál, lífeyrismál, Icesave, utanríkismál, stjórnmálaflokkana, stjórnarskrána, landsdóm, réttarríkið, fjölmiðla og margt fleira. Full ástæða er til að vekja athygli á þessari bók, en hún er fjórða bók Óla Björns Kárasonar sem fæst í Bóksölu Andríkis, en þar eru fyrir Síðasta vörnin, Þeirra eigin orð og Stoðir FL-Group bresta. Ólíkar bækur en athyglisverðar.

Hin bókin sem nú bætist í Bóksöluna er af öðrum toga. Þar er á ferð heimsfræg skáldsaga sem nú kemur loks út í íslenskri þýðingu, rúmlega hálfri öld eftir útkomu hennar í Bandaríkjunum.

Fyrir tuttugu árum eða svo efndu hið risavaxna bandaríska bókasafn, Library of Congress, og Book of the Month klúbburinn, til viðamikillar könnunar á því hvaða bók bandarískir lesendur teldu hafa haft mest áhrif á sig. Biblían varð þar að sjálfsögðu í efsta sæti en á eftir henni kom skáldsaga eftir konu nokkra, Ayn Rand að nafni, sem hafði flúið Sovétríkin árið 1926 og sest að í Bandaríkjunum. Þar skrifaði hún nokkrar bækur sem selst hafa í milljónum eintaka og haft veruleg áhrif á lesendur sína, ekki síst sú bók sem þarna átti í hlut, Atlas Shrugged

Sú bók er nú komin út í íslenskri þýðingu, undir nafninu Undirstaðan, og er óhætt að segja að um stórvirki sé að ræða, hvort sem litið er til efnis eða bara lengdar. Bókin reynist mörgum lesendum sínum ógleymanleg og ekki aðeins fyrir blaðsíðufjöldann, en bókin er hvorki meira né minna en 1146 síður. Í bókinni koma tvær mismunandi manngerðir mjög við sögu, þeir sem skapa og þeir sem taka. Þeir sem búa til verðmæti og þeir sem í raun lifa einhvers konar sníkjulífi á þeim sem skapa. Þeir síðarnefndu skipta sér stöðugt af því hvernig hinir fyrrnefndu haga hlutunum, hvað þeir megi og hvað ekki, hvernig þeir eigi að haga rekstri sínum og hvernig ekki, og taka svo drjúgan hluta verðmætanna til sjálfra sín og deila út eftir eigin geðþótta.

Í raunveruleikanum beygja þeir skapandi sig undir yfirgang hinna og láta gjarnan eins og sér sé það ljúft. Þegar ríkinu er beitt til að ráðskast með málefni annarra, taka þeir skapandi sjaldnast á móti. Ef ríkið skipar þeim að gera jafnréttisáætlun þá gera þeir jafnréttisáætlun og ráða fjölmiðlafulltrúa til að segja að jafnréttismálin séu þeim mjög hugleikin. Ef ríkið skipar hluthöfum nútímafyrirtækja að velja sér konur í stjórn þess, þá hlýða þeir og segjast einmitt hafa ætlað að skipta um stjórn og kjósa þar nokkra mannauðsstjóra, svo lögin hafi eiginlega verið óþörf. Ef ríkið bannar eigendum skemmtistaða að leyfa reykingar á staðnum, þá setja þeir strax upp skilti og segja að reykingar séu bannaðar.

En hvað gera hinir skapandi í Atlas Shrugged?