Miðvikudagur 31. október 2012

Vefþjóðviljinn 305. tbl. 16. árg.

Fyrir nokkru fjallaði Ríkisútvarpið um það dögum saman að ýmsir kjörnir fulltrúar hefðu ekki skilað hinu opinbera „uppgjöri“ vegna prófkjörsbaráttu. Þótti fréttamönnum þetta mjög alvarlegt mál.

Það er rétt hjá fréttamönnum að nýlega var slík skylda leidd í lög og lögum ber vitanlega að hlýða. Þessi lög ætti hins vegar að afnema sem fyrst. Það á að vera einkamál hvers manns hvort hann styður stjórnmálaflokk eða einstaka stjórnmálamenn og hvort hann gerir það með fjárframlagi, vinnuframlagi eða öðrum hætti.

Fyrir nokkrum árum náðu fjölmiðlamenn og álitsgjafar fram því baráttumáli sínu að sett voru lög um fjármál stjórnmálaflokka og einstakra frambjóðenda. Eru þau lög mjög lituð af tortryggni í garð peninga og vantrúar á að fólk verji peningum í neitt af góðum hug.

Þegar fréttir af prófkjörsuppgjörunum voru sem háværastar mátti víða heyra í andstuttu fólki sem taldi gríðarlega mikilvægt að fá að vita hver styrkti prófkjörsframbjóðanda um einhverja aura. „Greiði kemur greiða á móti“ var viðkvæði sem oft fylgdi hneyksluninni.

En hvers vegna þá að einskorða sig við fjárstyrki? Það er einfaldlega mjög misjafnt hvað menn bæði vilja og geta hugsað sér að leggja af mörkum öðrum til stuðnings. Sumir skrifa greinar í blöð til stuðnings málefni eða flokki, og leggja þannig á sig þá vinnu sem því fylgir. Aðrir skrifa athugasemdir á umræðuvefi til stuðnings eða andstöðu við flokka eða stjórnmálamenn, og fórna sumir um leið áliti sínu. Einhverjir hringja í símatíma útvarpsstöðvar og láta móðan mása, til stuðnings eða andstöðu við einhvern flokk eða frambjóðanda. Allt er þetta framlag sem munar um, eða getur munað um. Margir geta hins vegar ekki hugsað sér neitt af þessu, en eru fúsir til að leggja einhverja tugi þúsunda króna í kosningasjóð. Ekki til þess að kaupa sér frambjóðandann, ekki frekar en maðurinn sem skrifar bloggfærslu til stuðnings honum, heldur eingöngu til að styðja við mann eða málefni sem honum þykja geðfelld. 

Hvers vegna á að birta skrá um alla þá sem veita síðastnefnda stuðninginn, fjárstyrkinn, en ekki um þá sem bera út bæklinga, blogga, skrifa athugasemdir, mæta á útifundi, hringja í útvarpsstöð, hrósa frambjóðanda eða rægja keppinaut hans? Hvort ætli frambjóðanda muni meira um öflugan lofsöngvara eða tuttuguþúsund krónur í kosningasjóð?

Hvers vegna er alið á þessari sífelldu tortryggni við peninga? Þeir sem ala á henni, eru þeir sjálfir þeirrar gerðar að þeir láta aldrei krónu af hendi nema til þess að fá eitthvað meira til baka?

Þeir, sem halda að aðrir gefi ekki í kosningasjóð nema „til að fá eitthvað í staðinn“, geta þeir útskýrt hvers vegna fólk mætir á mótmælastöður við sendiráð, hlekkjar sig við jarðýtur, fer í kröfugöngur, tekur þátt í undirskriftasöfnunum, mætir á fundi og sinnir alls kyns sjálfboðaliðastarfi? Staðreyndin er sú, að langfæstir þeirra gera það í von um nokkurn fjárhagslegan ábata eða annan óeðlilegan ávinning. Sama á við um flesta þá sem velja að styðja aðra með fjárframlögum frekar en með öðrum hætti.