Vefþjóðviljinn 298. tbl. 16. árg.
Til viðbótar við frásagnir af gjaldþrota bankakerfi og héruðum og ríkissjóð í eilífri óvissu um hvort aukið lánsfé fæst til að velta vandanum áfram, eru sagðar dapurlegar fréttir af atvinnuástandi á Spáni.
Þar er fjórði hver vinnufær maður án vinnu, þótt vafalítið megi gera ráð fyrir að einhverjir starfi á svörtum markaði um leið og þeir hirða atvinnuleysisbætur. Með þessum fréttum fylgir jafnan að atvinnuleysið sé mest meðal ungs fólks, allt að 50%.
Þessi staða meðal ungra Spánverja kemur þeim mun meira á óvart þegar aldursdreifing þar í landi er skoðuð, en það má gera fyrir flest lönd og álfur á vefnum Populationpyramid. Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar hefur fækkað hressilega í yngsta aldurshópnum undanfarna áratugi. Ungir Spánverjar eru fáir og af þeim er stór hluti atvinnulaus.
Hver ætli sé tryggingafræðileg staða spænska gegnumstreymis-lífeyriskerfisins þegar haft er í huga að þeir fáu sem eru þarna neðst eru flestir atvinnulausir?
Þessi staða er því miður ekki einsdæmi í Suður-Evrópu.