Vefþjóðviljinn 294. tbl. 16. árg.
Væri tillaga „stjórnlagaráðs“ að stjórnarskrá í gildi þyrfti ekki lengur að breyta stjórnarskrá til að framselja vald úr landi. Fullveldisframsal , eins og aðild að ESB, þyrfti þá aðeins að samþykkja á einu þingi og í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá þarf hins vegar að samþykkja slíka breytingu á stjórnarskrá á alþingi, boða til almennra kosninga og staðfesta breytinguna svo á næsta þingi.
Með tillögum stjórnlagaráðs í 111. gr. er hindrunum að fullveldisframsali því fækkað úr þremur í tvær.
Að auki er í tillögum stjórnlagaráðs í 113. gr. gert ráð fyrir að 5/6 hlutar alþingis geti gert skyndibreytingar á stjórnarskránni, til dæmis hent út ákvæðinu um þjóðaratkvæði um fullveldisframsal. Alþingi gæti því í raun rennt Íslandi undir Evrópusambandið án frekari málalenginga.
Það er svo umhugsunarefni að samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs í 67. gr. um þjóðaratkvæðagreiðslur að áeggjan almennings verða slíkar atkvæðagreiðslur um þjóðréttarlegar skuldbindingar ekki heimilar. Kjósendur gætu því ekki krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn úr ESB væri Ísland komið þar inn.
Menn gætu vissulega farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um lög um tilhögun á kirkjuhurðum en ekki mál eins og Icesave eða ESB.