Miðvikudagur 17. október 2012

Vefþjóðviljinn 291. tbl. 16. árg.

Þá er það þessi hugmynd að semja „alíslenska stjórnarskrá“, eins og Vilhjálmur Þorsteinsson stjórnlagaráðsliði og fleiri hafa kallað það. Alíslenska. 

Er lýðræði alíslensk hugmynd? Er þrígreining ríkisvaldsins kannski kennd við Þríhnúkagíg? Er eignarréttur úr Þorrabakka? Eru helstu mannréttindi, óaðskiljanlegur rétturinn til lífs, frelsis og leitar að lífshamingju, made in the… Ísland?

Það er auðvitað ekkert „alíslenskt“ við tillögur stjórnlagaráðs utan þær ríflega þúsund milljónir sem eytt hefur verið í að finna upp þetta alíslenska hjól. Og þó, þær milljónir eru ekki íslenskari en svo að þær voru teknar að láni á Norðurlöndunum og Póllandi því ríkissjóður Íslands hefur verið rekinn með ofboðslegum halla á meðan þessu stóð. 

En það má vissulega halda því fram að það sé alíslenskt að taka erlent lán fyrir sköpun á alíslensku yfirburðaverki. 

Það að fara framhjá skýrum úrskurði hæstaréttar landsins er að vísu séríslenskt hugvit. 

Það að efna til þjóðaratkvæðis um tillögur, áður en þær eru teknar til meðferðar á þeim stað þar sem valdið til að leggja þær fram, breyta og samþykkja liggur í raun, er líka alíslenskt hugvit.

Gísli Tryggvason, Eiríkur Bergmann Einarsson og þeir, virðast halda að þeir sjálfir séu George Washington og Thomas Jefferson.