Miðvikudagur 10. október 2012

Vefþjóðviljinn 284. tbl. 16. árg.

Borgarahreyfingin þiggur fé af almenningi og veitir því í baráttu hagsmunahóps. Hvað varð um frasann um að stjórnmálaflokkar eigi að halda sig til hlés?
Borgarahreyfingin þiggur fé af almenningi og veitir því í baráttu hagsmunahóps. Hvað varð um frasann um að stjórnmálaflokkar eigi að halda sig til hlés?

Komið hefur í ljós að einn stjórnmálaflokkanna í landinu leggur nú milljónir króna í framlög til kosningabaráttu vegna stjórnarskrártillögu Eiríks Bergmanns, Gísla Tryggvasonar, Illuga Jökulssonar, Þórhildar Þorleifsdóttur og þeirra hinna í „stjórnlagaráði“.

Viðskiptablaðið vakti í vikunni athygli á því að Borgarahreyfingin, sem fékk fjóra menn kjörna á þing í síðustu kosningum og hefur síðan sem stjórnmálaflokkur þegið milljónir króna úr ríkissjóði á hverju ári, hefur lagt milljónir króna til starfsemi Samtaka um nýja stjórnarskrá, sem fer nú mikinn í áróðri vegna komandi kosningar. Formaður félagsins er Þorvaldur Gylfason

Að sjálfsögðu hefur Ríkisútvarpið ekki frétt af því að einn stjórnmálaflokkanna í landinu leggur nú milljónir króna í baráttuna fyrir „þjóðaratkvæðagreiðsluna“. Álitsgjafarnir, sem sumir hverjir hafa haft stjórnarskrárbramboltið á heilanum allan tímann sem það hefur staðið og aldrei séð neitt að ruglinu, hafa heldur ekki frétt af þessu. Guðmundur Andri Thorsson er enn ekki búinn að skrifa um málið. 

Hvernig var nú með alla frasana um að stjórnmálaflokkarnir ættu að halda sig til hlés? Að nú væri sko komið að þjóðinni án þess að stjórnmálaflokkar „skiptu sér af“? 

Ætli Ríkisútvarpið og álitsgjafarnir væru eins þögul ef einhver stjórnmálaflokkur setti milljónir króna í baráttu gegn tillögum Eiríks Bergmanns, Gísla Tryggvasonar og þeirra?