Vefþjóðviljinn 283. tbl. 16. árg.
Vefþjóðviljinn á bágt með að skilja hvernig Íbúðalánasjóður getur hafa þurft tugmilljarða ríkisaðstoð undanfarin ár og í raun sé ekki útlit fyrir annað en reglubundna meðgjöf skattgreiðenda með sjóðnum á næstu árum.
Sjóðurinn uppfyllir ekkert þeirra skilyrða sem talin hafa verið nauðsynleg til að koma fjármálastofnun fyrir kattarnef. Hann er að fullu í eigu ríkisins, er rekinn af grandvörum embættismönnum samkvæmt nánum lagafyrirmælum og hefur enga arðsemiskröfu heldur miklu fremur einhvers konar fyrirmæli um samfélagslega ábyrgð. Stjórnendur sjóðsins eiga ekki kost á kaupréttarsamningum, lánum til hlutabréfakaupa eða gullspæni út á grautinn sinn og þurfa því ekki að gefa sig skammtímahagmunum á vald. Þar ægir heldur ekki saman hinum háheilögu innlánum og fjárfestingabankastarfsemi.
Engu að síður væri sjóðurinn nú undir stjórn skiptastjóra ef ekki kæmi til ætluð óbein ríkisábyrgð á honum og tugmilljarða stuðningur almennings undanfarin misseri. Ef gert er ráð fyrir að sjóðurinn mjólki skattgreiðendur um samtals 50 milljarða króna á nýliðnum og næstu árum mun hver fjögurra manna fjölskylda hafa fengið yfir 600 þúsund króna reikning vegna sjóðsins.
Vefþjóðviljinn veltir því fyrir sér hvort eitthvað sé því til fyrirstöðu að loka sjóðnum og selja eignir hans og fá þar með endanlega niðurstöðu í tap skattgreiðenda á þessum rekstri. Það sýnist betri kostur en að skattgreiðendur verði áfram látnir taka þá áhættu sem í rekstri sjóðs af þessu tagi felst.
Sérstaklega þegar haft er í huga að sjóðurinn virðist beinlínis vinna gegn þeim lagafyrirmælum að auðvelda almenningi að eignast húsnæði eins og hér hefur áður verið rakið.
En kannski gerist það að sjálfu sér því kjör á lánum sjóðsins til íbúðarkaupenda eru verri en aðrir bjóða.