Vefþjóðviljinn 268. tbl. 16. árg.
Á dögunum var maður nokkur dæmdur í eins árs fangelsi fyrir árás á sambýliskonu sína. Þessi maður fékk fyrir áratug sextán ára dóm fyrir manndráp, en hafði fengið reynslulausn af eftirstöðvum þeirrar refsingar og gekk því laus. Áður en að reynslulausninni kom hefur hann alveg örugglega afplánað hluta refsingar sinnar „á Vernd“, því það mega allir dæmdir menn gera, aðrir en þeir sem sitja inni fyrir kynferðisbrot gegn barni.
Hafði einhver heyrt frétt af því að þessi maður, dæmdur morðingi, hafi fengið reynslulausn? Eða afplánað hluta refsingar sinnar á Vernd? Nei, það hafði enginn heyrt slíka frétt því engin slík frétt hefur verið sögð. Allir fangar sem hegða sér vel geta fengið reynslulausn. Og með þeirri undantekningu sem hér var nefnd vegna kynferðisbrots gegn barni geta þeir allir fengið að afplána hluta refsingarinnar hjá Vernd. Í þessu er ekkert nýtt og menn hafa frekar stært sig af þessu en hitt, sagt að Íslendingar séu ekki eins refsiglaðir og sumir aðrir, sem dæmi menn í mörg hundruð ára fangelsi og sleppi þeim aldrei út.
En fyrir örskömmu voru gerðar miklar fréttir um einn mann sem, eins og aðrir, fær að afplána hluta refsingar sinnar á Vernd. Ríkissjónvarpið segir frétt eftir frétt um málið – þótt það neyðist til að láta þess getið í örfáum orðum, eins og um smáatriði sé að ræða, að afplánun hans sé reyndar í fullu samræmi við reglur. Þessi maður, sem einn fanga lendir í ítrekuðum sjónvarpsfréttum fyrir að afplána eftir öllum reglum, er að vísu ekki morðingi eða nauðgari, eins og margir þeirra sem fá að afplána hjá Vernd og fá svo reynslulausn við algert áhugaleysi fréttamanna, heldur seldi Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hlutabréf á sama tíma og hann, að mati meirihluta Hæstaréttar, bjó yfir meiri vitneskju en aðrir um bága stöðu Landsbankans.
Það hefur ekkert tilefni verið fyrir samfelldum fréttaflutningi af afpánun þessa manns. Meira að segja sá fjölmiðill sem ákafastur er, Ríkisútvarpið, viðurkennir að hún er í samræmi við gildandi reglur. Fjölmiðlar hafa hingað til aldrei talið það fréttnæmt þegar dæmdir morðingjar eða ofbeldismenn hafa farið á Vernd eða fengið reynslulausn í samræmi við lög og reglur. En núna á í hlut fyrrverandi ráðuneytisstjóri svo fréttamenn halda að nú eigi einhver allt önnur sjónarmið við. Fréttaflutningurinn af afplánun þessa manns segir sína sögu um íslenska fjölmiðlamenn og hversu fjarri þeir enn eru jafnvægi þegar kemur að málum sem tengjast bankahruninu. Slíkt ójafnvægi þarf ekki að breiðast víða út til þess að verða að ógn við réttarríkið.