Miðvikudagur 19. september 2012

Vefþjóðviljinn 263. tbl. 16. árg.

Nú ætla alþingismenn að stíga eitt skrefið enn í átt að barnfóstruríkinu. Nú á að setja með lögum skorður við því að fólk fái svokölluð smálán. 

Eins og venjulega þá er þessi áfangi að barnfóstruríkinu kynntur þannig að hann sé nauðsynlegur, fólki til verndar. Það hafa nefnilega einhverjir komið sér í vandræði með því að taka „smálán“ sem þeir áttu svo erfitt með að borga til baka.

Ekki er hins vegar vitað til þess að smálána-veitandi hafi svikið nokkurn mann. Fjárráða fólk hefur einfaldlega gert skýran samning um að fá tiltekna fremur lága fjárhæð að láni, gegn því að borga aðra og nákvæmlega ákveðna hærri fjárhæð til baka, eftir ákveðinn tíma. Enginn hefur verið þvingaður til viðskiptanna, allir máttu vita hvað þeir voru að gera, en töldu betra en ekki að gera samninginn.

En nú á að takmarka rétt fólks til að gera slíka samninga. Vefþjóðvijinn er almennt andvígur atlögum að samningafrelsi fólks. Það er hluti af því að vera frjáls maður, að vera frjáls að því að ráðstafa eigum sínum og gera fjárhagslegar skuldbindingar. Það á hvorki að taka af fólki þann rétt að gera fjárhagslega samninga – jafnvel þótt öðru fólki þyki þeir óskynsamlegir – né taka af fólki ábyrgðina á eigin lífi. Það er engum hollt að fólk venjist æ meira á að það þurfi ekki að kunna fótum sínum forráð, að ríkisstarfsmenn og stjórnmálamenn séu búnir að ákveða hvað sé skynsamlegt fyrir allan hópinn og hvað ekki.

Og ef menn hafa áhyggjur af því að menn taki „smálán“ sem þeir geti ekki borgað, þá ættu þeir að hugsa málið aðeins betur. Í fyrsta lagi, þá er það auðvitað tap lánveitandans, hins hataða smálánafyrirtækis, ef lánþeginn borgar ekki til baka. Og í öðru lagi þá setja smálánafyrirtækin þak á hæsta lán sem hver og einn getur fengið. Hæsta lánið er nú 150.000 krónur ef Vefþjóðviljinn veit rétt. Upp í það þak komast menn bara í áföngum. Fyrst fá menn að taka lítið lán og aðeins þeir sem standa í skilum fá að taka hærra næst. Auðvitað er ekki gott að skulda 150.000 krónur auk kostnaðar og geta ekki borgað. En menn hafa margt gert verra í fjármálum. Það að koma sér í skuld við smálánafyrirtæki, sem setur 150.000 króna þak á lánveitingu, er kannski ekki versta aðferðin til að læra á eigin skinni að fara varlega í persónulegum fjármálum. Er víst að mönnum sé alltaf gerður greiði með ofsaverndinni?

En hvað um þá sem eru kannski drukknir þegar þeir taka lánið, eða viti sínu fjær vegna lyfja eða annars slíks? Já, auðvitað hafa margir samúð með slíkum lántakendum, en vilja menn samt að á möguleikinn á slíkri lántöku verði til þess að öllum öðrum verði bannað að taka „smálán“? Það eru ótal hlutir sem fólk getur farið illa á, en menn eiga samt að fara ákaflega varlega í að taka af fólki ráðin um eigin mál. Meginreglan á auðvitað að vera sú að fjárráða fólk megi gera skuldbindingar óháð því hversu gáfulegar öðrum mönnum þykja þær. Sumir eyða hundruðum milljóna króna í hlutabréf í fyrirtækjum þar sem stjórnendur taka mikla áhættu í rekstri og setja svo allt á hausinn, á að banna það? Aðrir eyða stórfé í eitthvað sem þeir telja listaverk en flestum öðrum þykir verðlaust drasl, á að banna það? Sumir stunda það að kaupa notaða bíla af undarlegum mönnum, í von um sjá lengra en sölumaðurinn en sitja svo uppi með ryðhaug sem enginn vill sjá, á að banna það? Sumir kaupa sér lófalestur og áruteikningu en einhverjum öðrum þykir það peningasóun og kukl, á að banna það? 

Og sumir taka 40.000 króna lán með sms-i og lofa að borga 48.900 krónur eftir fimmtán daga. Einhverjir vilja banna það.