Þriðjudagur 18. september 2012

Vefþjóðviljinn 262. tbl. 16. árg.

Við Ánanaust. Í stað þess að taka á ökuníðingum í vesturborginni gera yfirvöld öllum vegfarendum, akandi sem gangandi, hóprefsingu.
Við Ánanaust. Í stað þess að taka á ökuníðingum í vesturborginni gera yfirvöld öllum vegfarendum, akandi sem gangandi, hóprefsingu.

Íbúar í gamla Vesturbænum hafa mörg undanfarin ár mátt þola ónæði af völdum ökuníðinga sem nota bílaplön og götur í Örfirisey og við Ánanaust sem vettvang fyrir ofsa- og glæfraakstur sinn. Þótt þetta sé fremur afmarkað svæði og reykspólandi og ýlfrandi bílar séu auðfundnir í næturkyrrðinni hafa yfirvöld ekki náð að stemma stigu við þessu ofbeldi.

En nýlega gripu þau hins vegar til ráðstafana. Þær beinast þó ekki aðeins að ökuföntunum heldur öllum ökumönnum sem fara um Ánanaust. Á áður greiðfær Ánanaustin eru komnar hraðahindranir sem kosta tafir og þar með aukna mengun sem borgarstjórnin þykist berjast gegn. Í stað þess að taka á hinum raunverulega vanda í þessu máli er öllum ökumönnum gerð refsing. Einkum íbúum á Seltjarnarnesi sem þurfa að komast af nesinu og inn í borgina. En ökuníðingarnir halda iðju sinni hins vegar ótrauðir áfram.

Því miður er það hvorki nýtt eða einstakt ráðslag að öllum sé refsað fyrir hegðun fárra. Menn þekkja að öllum landsmönnum er gert að greiða gríðarlega hátt verð fyrir vín og eiga aðeins kost á að nálgast það á örfáum stöðum á ákveðnum tímum. Er það meðal annars réttlætt með því að sumt fólk misfari með þær veigar, sem er auðvitað sorgleg staðreynd en er engu að síður veruleiki þrátt fyrir þessa hóprefsingu.

Og listinn yfir hóprefsingar lengist dag frá degi, fita, sykur, tóbak, kexkökur, sælgæti, salt.

Við þetta má svo bæta að þessar nýju hraðahindranir borgarstjórnar á mótum Ánanausta og Vesturgötu eru stórhættulegar gangandi vegfarendum. Þær eru lagðar við gönguleið yfir götuna. Gangandi vegfarendur gera því ráð fyrir að bílstjórnar hægi á sér þegar þeir nálgast hindranirnar og ráðrúm sé til að ganga yfir götuna. Flestir bílstjórar gera það auðvitað. Litlir bílar geta hins vegar skotist á milli hindrananna án þess að hægja á sér sem skapar stórhættu á að gangandi ofmeti þann tíma sem þeir hafa til að komast yfir gotuna.

Þetta er sumsé það helsta sem Vefþjóðviljinn hefur að segja daginn eftir að Seðlabanki Íslands lagði fram skýrslu sína um kosti Íslendinga í gjaldeyrismálum.