Mánudagur 17. september 2012

Vefþjóðviljinn 261. tbl. 16. árg.

Bílastæðin kosta allt í einu ekki neitt og taka ekki heldur verðmætt pláss í borgarlandinu ef bíllinn er að smekk borgarfulltrúa.
Bílastæðin kosta allt í einu ekki neitt og taka ekki heldur verðmætt pláss í borgarlandinu ef bíllinn er að smekk borgarfulltrúa.

Bifreiðaumboðin hafa birt stórar auglýsingar í dagblöðunum í haust. Meðal þess sem tekið er fram í sumum auglýsingunum er að þessari eða hinni bílategundinni megi leggja „frítt“ í stæði í borginni.

Skýringin á því mun vera sú, að borgaryfirvöld kalla þá bíla „visthæfa bíla“, en með „Grænum skrefum“ sem borgaryfirvöld samþykktu árið 2007 var ákveðið, „til að stuðla að aukinni notkun sparneytinna ökutækja og ökutækja sem nota innlenda orku“, að bílar sem uppfylltu tiltekin skilyrði mættu standa í einn og hálfan tíma frítt í stæðum sem aðrir þurfa að borga fyrir aðgang að.

Er þetta ekki gott framtak hjá borginni? 

Nei alls ekki. Það er þvert á móti dæmi um það hvernig stjórnlynt fólk hefur komist til forystu í öllum flokkum á síðustu árum. Fólk sem sér ekkert að því að beita hinu opinbera á einu sviði til að ná fram einhverju baráttumáli sínu á öðru sviði. 

Látum allar spurningar um gróðurhúsaloftkenningar og hlýnun jarðar liggja milli hluta. Það sem skiptir máli hér að hlutverk stöðumælagjalda er að ná fram skynsamlegri notkun á bílastæðum; ekki að ná fram einhverjum hugmyndum einstakra borgarfulltrúa um það á hvers konar bílum fólk ekur. 

Sveitarfélög hafa ákveðin takmörkuð hlutverk með höndum. Öðru eiga þau ekki að sinna. Það að hygla í gjaldtöku þeim mönnum sem eiga „ökutæki sem nota innlenda orku“ er ekki hlutverk sveitarfélaga og alls ekki hlutverk bílastæðasjóðs, og þess vegna mega borgarfulltrúar ekki láta aðrar reglur gilda um slíka bíla en aðra. 

En þetta skilja ekki núverandi borgarfulltrúar í Reykjavík. Þeir sjá ekkert að því að bíleigendum sé mismunað með þessum hætti, bara af því að þeir hafa einhverjar skoðanir á því á hvers konar bílum fólk á að aka.

En hvað ef skoðanir borgarfulltrúanna breyttust? Ef næstu fimmtán borgarfulltrúar verða þeirrar skoðunar að það sé mjög æskilegt að menn aki um á þungum og stórum bílum, því þeir verji ökumanninn svo vel ef til áreksturs kemur – mega þeir borgarfulltrúar þá ákveða að þungir og stórir bílar megi vera frítt í stæðunum en ökumenn léttra bíla borga fullt verð? Nei, ætli þá myndu ekki flestir sjá að borgarfulltrúar mega ekki nota bílastæðasjóð til að knýja fram einhverjar persónulegar skoðanir sínar á bílum. 

Það að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sjái ekkert að þessu fyrirkomulagi og hafi raunar haft frumkvæði að því, er enn eitt dæmið um hvernig borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur runnið saman við vinstriflokkana í borgarstjórn á síðustu árum.