Vefþjóðviljinn 235. tbl. 16. árg.
Í gær sagði Fréttablaðið frá því að lítið hefði staðist í rekstraráætlunum útrásarhallarinnar sem kölluð er „Harpa“. Þegar horft sé til minni tekna og hærri rekstrarkostnaðar sé árangurinn tæplega hálfum milljarði króna verri en gert hafi verið ráð fyrir.
Meðal þess sem kemur fram í fréttinni er að „meðal þess sem forsvarsmenn Hörpu gerðu ráð fyrir að myndi gerast á fyrsta rekstrarári hússins var að það myndi ná til sín 45 prósenta hlutdeild á ráðstefnuhaldsmarkaði.“
Það hlýtur að vera ánægjulegt fyrir eigendur annarra ráðstefnuhúsa að lesa þetta. Menn þrýsta hinu opinbera til að reisa fyrir sig höll fyrir tugi milljarða króna og sjá ekkert að því að ná til sín verulegum hluta af þeim markaði þar sem aðrir hafa fram að þessu verið að reyna að halda úti rekstri fyrir eigið fé.