Vefþjóðviljinn 220. tbl. 16. árg.
Þótt hvert mannsbarn á Íslandi viti að árlega til ársins 2040 fær útrásarbautinn Harpa nær eitt þúsund milljónir króna í beina styrki frá ríki og borg kom Pétur J. Eiríksson stjórnarformaður ógæfunnar í fréttir Ríkissjónvarpsins 24. janúar 2010 og sagði án nokkurs hiks:
Þetta snertir ekki ríkissjóð, þetta snertir ekki skattfé, þetta er eingöngu fjármagnað með lánsfé á frjálsum lánamarkaði. Og við teljum að svona eigi að mæta kreppu, að ná þeim peningum sem til eru í þjóðfélaginu og skapa vinnu og opna svona glæsilegt hús. Þetta hús verður sjálfbært, það er okkar verkefni að reka þetta hús með sjálfbærum hætti. Þannig að tekjur hússins eiga að duga og munu til að greiða niður lán af byggingunni og það á að greiða niður allan rekstrarkostnað þannig að það er ekki meiningin að þetta hús verði á húninum hjá ríkisstjórninni til að betla peninga einu sinni á ári.
Nú er komið í ljós að Harpan er rekin með yfir 400 milljóna króna halla á ári. Mikið væri gott ef hægt væri að treysta orðum stjórnarformannsins um að þetta dúndrandi tap „snerti ekki skattfé“. En því miður er varla við því að búast að maður sem telur sjálfum sér og öðrum trú um að nær þúsund milljóna króna árlegur stuðningur skattgreiðenda sé í raun „lánsfé á frjálsum markaði.“
Nú er bara að bíða og sjá hvaða útrásarsnúning menn taka til að láta hallann hverfa. Líklegast er að opinber gjöld, sem önnur samkomuhús greiða, verði felld niður ásamt því að annað nær gjaldþrota ríkisfyrirtæki, sinfónían, verði látið greiða hærri leigu.
Pétur H. Blöndal alþingismaður sagði í liðinni viku að menn hefðu aldrei átt að hefja byggingu tónlistarhússins. Þá varð Vefþjóðviljanum hugsað til þess hverjir hefðu greitt atkvæði með og á móti tónlistarhúsinu í upphafi. Hann mann að aðeins einn borgarfulltrúi af 15, Kjartan Magnússon, greiddi atkvæði gegn því á vettvangi borgarstjórnar. En í þinginu? Hverjir voru með og á móti þar? Hvernig greiddi Pétur H. Blöndal atkvæði um tónlistarhúsið?
Er það ekki staðreynd að aldrei voru greidd atkvæði á Alþingi með beinum hætti um byggingu tónlistarhússins og þá tugmilljarða króna skuldbindingu ríkissjóðs sem í henni fólst?
Þegar farið var af stað með byggingu að nýju eftir bankahrunið haustið 2009 spurði Pétur fjármálaráðherra hvar tónlistarhúsið væri að finna í fjárlögum ríkisins. Steingrímur J. Sigfússon var til svara og í þágu gagnsæis, fagmennsku og mikilvægis þess að hafa allt uppi á borðum svaraði hann:
Eftir því sem ég best veit þá er það að rísa niðri við höfnina.