Miðvikudagur 1. ágúst 2012

Vefþjóðviljinn 214. tbl. 16. árg.

Raunverulegur tekjumunur á Íslandi og víðast hvar á Vesturlöndum er án efa vanmetinn. Já, vanmetinn! Munur á ráðstöfunartekjum eftir að skattar hafa verið greiddir og bætur þegnar er líklega meiri en opinberar tölur gefa til kynna.

Í hinum fráleitu tekjublöðum DV og Frjálsrar verslunar voru fjármagnstekjur ekki teknar með í útreikning blaðanna þótt það blasi við að fjöldi fólks getur valið að greiða sér fremur arð en laun. 

Sumir geta þannig talið tekjur „framhjá“ staðgreiðslukerfinu með því að greiða launin sem arð. Það er eins og lög gera ráð fyrir og fullkomlega eðlilegt að menn nýti þennan möguleika.

Þeir sem helst eru í stöðu til að telja tekjur sínar fram sem fjármagnstekjur geta einnig látið alls kyns kostnað falla á rekstur sinn sem venjulegt launafólk getur ekki dregið frá sínum heimilistekjum. Þetta kemur bæði fram með beinum hætti í kaupum á alls kyns tækjum, ferðalögum, áskriftum, námskeiðum, veitingum, veiðiferðum og svo framvegis en einnig í óbeinum ágóða af því að kaupa þjónustu í samfloti við fyrirtækið. Að ógleymdum „vildarpunktunum“ sem menn safna á fyrirtækjakortin. Margt af þessu kann strangt til tekið að vera á gráu svæði gagnvart skattyfirvöldum en mjög erfitt fyrir þau að eltast við. 

Tekjumunur er því ekki aðeins vanmetinn vegna fjármagnstekna heldur einnig vegna þess að hluti fólks getur dregið allan skrattann frá tekjum sínum í gegnum rekstur sinn.

Er nú Vefþjóðviljinn orðinn galinn að vekja athygli á þessu? 

Nei Vefþjóðviljinn telur tekjumun eðlilegan og raunar æskilegt að þeir sem leggja hart að sér njóti þess einmitt í því að vera með hærri tekjur en aðrir. Það á ekki að steypa alla í sama mót. Hann ætlar því ekki að eyða orku sinni í að afneita eða breiða yfir tekjumun.

Hann vill hins vegar að skattar verði lækkaðir og einfaldaðir þannig að menn þurfi ekki að stunda alls kyns æfingar til að komast hjá því að greiða þá.