Vefþjóðviljinn 213. tbl. 16. árg.
Það er rétt hjá Stefáni Ólafssyni prófessor að „tekjublöðin“ sem Reynir Traustason og Benedikt Jóhannesson vinna í ofboði og flaustri upp úr álagningarskrám skattstjóra séu nær marklaus.
Margt fólk ræður því að verulegu leyti hvort það telur tekjur sínar fram sem launatekjur eða fjármagnstekjur. Menn í rekstri greiða sér ýmist laun eða arð, eins og gengur lögum samkvæmt. Útreikningur á launatekjum segir því takmarkaða sögu, bæði um þá sem hafa fjármagnstekjur og hina sem engar hafa því það vita hinir vönduðu lesendur tekjublaðanna ekki. Kaupendur blaðanna ættu að sjálfsögðu að leita endurgreiðslu hjá útgefendum því þeir telja sig vafalaust vera að kaupa „tekjublöð“ en eru í raun litlu nær um tekjur fólks eftir lestur þeirra.
Það skiptir litlu máli í þessu sambandi hvort það er hefð fyrir því í alþjóðlegum samanburði á tekjum að telja allar fjármagnstekjur með tekjum eður ei. „Tekjublöðin“ standa ekki undir nafni.
Við þetta bætist svo, eins og nafn álagningarskrárinnar ber með sér, að um að ræða álagningu sem í ýmsum tilvikum á eftir að gera athugasemdir við. Endanleg skattlagning getur því verið víðs fjarri því sem kemur fram í álagningarskránni. Endanleg skattskrá kemur út eftir hálft ár.
Eftir stendur þó aðalatriðið sem fyrr, upplýsingar sem skattyfirvöld hafa aðgang að og safna um málefni einstaklinga ætti ekki að dreifa til óviðkomandi með persónugreinanlegum hætti.
Vegna þessara mála voru í síðustu viku lesin upp lítil skilaboð frá Andríki í auglýsingatímum útvarps
Höfnum skrárgatsþjóðfélaginu. Kaupum ekki tekjublöðin.
Þessi skilaboð eru eins og annað starf Andríkis greidd með framlögum lesenda Vefþjóðviljans. Hér geta menn slegist í þann ágæta hóp.