Vefþjóðviljinn 209. tbl. 16. árg.
Fréttamenn hamast nú við að lesa upp þær tölur sem tekjublöðin segja að séu tekjur nafngreindra manna á síðasta ári. Vefþjóðviljinn veit ekki hversu rétt þær hafa verið reiknaðar og heldur ekki hvort fjármagnstekjur eru með í útreikningum blaðanna – en án þeirra væru tekjulistar ótal sjálfstæðra sérfræðinga auðvitað hálfsagðar sögur og ekki það. En hvað sem því líður þá vill Vefþjóðviljinn spyrja upplesarana, fréttamennina, einnar spurningar eða tveggja.
Hvernig er fjárhagsstaða ykkar sjálfra, virðulegu fréttamenn, sem þyljið upp tölur sem þið segið vera laun annars nafngreinds fólks?
Fréttamenn eru sjálfir mun þekktari en það fólk sem þeir nefna af tekjulistunum. Þeir eru sjálfir mun nær því en flestir á tekjulistunum að vera „opinber persóna“. Svo hafa þeir áhrif í landinu, sem fæstir á tekjulistanum hafa.
Hvers vegna segja fréttamennirnir ekki frá eigin fjármálum, úr því að þeim finnst sjálfsagt að fullyrða um fjármál annarra? Þar hafa þeir þó nákvæmari upplýsingar og þurfa ekki að notast við misrétta útreikninga blaðasnápa. Þeir geta lesið upp af launaseðlum sínum og bankayfirlitum.
Ef fjármál eru ekki einkamál hvers og eins og ef fólk á rétt á upplýsingum um fjárhagsmálefni þekkts fólks, þá ættu fréttamenn auðvitað að segja frá eigin fjármálum.
Lestri á listanum um tekjuhæstu tannlæknana gæti til dæmis lokið á orðunum: Sjálfur heiti ég Jón Jónsson, er fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, hafði þessi mánaðarlaun í fyrra, á þriggja herbergja íbúð við þessa götu, skulda þetta í yfirdrátt og þetta í húsnæðislán.
Þegar fréttamenn byrja á þessu skal Vefþjóðviljinn samþykkja að þeir meini í raun eitthvað með því þegar þeir segja að upplýsingar um fjármál annars fólks eigi erindi í fréttir.