Þriðjudagur 17. júlí 2012

Vefþjóðviljinn 199. tbl. 16. árg.

ESB mun draga Íslendinga fyrir dóm ef þeir hætta ekki að <i>endurnýta</i> glerkrukkur. ESB fyrirskipar að Íslendingar <i>endurvinni</i> þær. Í umhverfisráðuneytinu nötra menn af skelfingu og lofa að bæta ráð sitt með því að hefja mengandi endurvinnslu.
ESB mun draga Íslendinga fyrir dóm ef þeir hætta ekki að <i>endurnýta</i> glerkrukkur. ESB fyrirskipar að Íslendingar <i>endurvinni</i> þær. Í umhverfisráðuneytinu nötra menn af skelfingu og lofa að bæta ráð sitt með því að hefja mengandi endurvinnslu.

Í Fréttablaðinu í gær ef sagt frá því að Íslendingar brjóti EES samninginn með því að endurvinna ekki glerumbúðir en samkvæmt samningnum hafi átt að endurvinna 60% glerumbúða frá árslokum 2011, en um það er úrgangstilskipun Evrópusambandsins, því sambandinu er ekkert mannlegt óviðkomandi.

ESB sættir sig jafnframt ekki við að glerið sé endurnýtt, til að mynda sem undirlag í stígagerð. Endurvinnsla skal það vera.

Vitnað er í Kjartan Ingvarsson lögfræðing hjá umhverfisráðuneytinu.

Mjög líklegt er að okkur stefnt, en það eru minni líkur á einhverjum sektum ef það er fyrirséð að við vinnum að því að bæta okkur.

Kjartan segir það markmið íslenskra stjórnvalda að hefja söfnun á plasti, pappír, málmum og gleri fyrir árið 2012 og jafnvel fyrr. 

Hvernig getur það verið hluti af samningi um viðskiptafrelsi að annar aðili skikki hinn til að endurvinna glerflöskur? Hverju fjórfrelsisins svonefnda ætli skyldan til að endurvinna sultukrukkur tilheyri? 

Auðvitað er þessi úrgangstilskipun frá ESB sögð vera gefin út til verndar umhverfi og dýrmætum auðlindum. En hvernig fer endurvinnsla á gleri fram? Helgi Lárusson framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar lýsti því ágætlega fyrir lesendum Fréttablaðsins í gær.

„Mjög víða er gler ekki kerfisbundið endurunnið vegna þess að sú vinnsla er dýrari en að taka fram sandinn sem liggur víða og vinna úr honum nýtt gler,“ segir Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar. Helgi bendir á að við endurvinnslu á gleri þurfi að hreinsa það mjög vel, bæði allan pappír af ílátunum og allt innihald. Þessi hreinsun sé mengandi. Að auki þurfi að flytja glerið með flutningabíl í skip, sigla skipinu í höfn erlendis, og þaðan keyra það í glerbræðslu. Þessir flutningar mengi líka. „Og þá kemur alltaf upp spurningin: Hvað viltu ganga langt og hvenær er verið að vernda umhverfið? Er þetta umhverfisvænt eða ekki?“ Helgi segir skynsamlegra að endurnýta glerið. „Við höfum frekar notað þetta í malbik, glerteppi, í viðhald á görðum eða saxað glerið í sand og notað í stíga.“

Helgi telur það betri kost en endurvinnslu. „Það er mjög dýrt að endurbræða gler og það kostar mengun að endurvinna það.“

Ætla íslensk stjórnvöld að láta Evrópusambandið kúga sig út í dýra og mengandi starfsemi í nafni umhverfisverndar?