Vefþjóðviljinn 195. tbl. 16. árg.
Forseti Alþingis er mjög reiður yfir nýjum skipulagstillögum sem gera meðal annars ráð fyrir tíuþúsund fermetra hóteli rétt hjá þinginu. Þingforseti segir að skipulagsyfirvöldum sé skylt að gefa þinginu ákveðið rými.
Nú hefur Vefþjóðviljinn ekki kynnt sér skipulagsttilögurnar sérstaklega, en gæti auðvitað vel trúað, miðað við annað sem gert hefur verið í skipulagsmálum borgarinnar upp á síðkastið, að lítið sé varið í tillögurnar. Þingforsetinn gæti þess vegna alveg haft rétt fyrir sér – þó svo megi auðvitað ekki útiloka heldur að þarna sé gamall plötusnúður úr Glaumbæ bara að reyna að bjarga Nasa.
En orðalag þingforsetans, að þingið þurfi að fá rými, er áhugavert. Fleiri en þingið þurfa nefnilega rými, og það annars konar rými. Hinn almenni borgari þarf rými. Hann þarf að geta andað fyrir stjórnvöldum. Og þar er gengið nær honum á hverju ári.
Stjórnvöld þrengja jafnt og þétt að hinum almenna borgara. Opinbera „rýmið“ eykst en einka-„rýmið“ minnkar. Þetta gerist fyrst og fremst með tvennum hætti.
Annað atriðið er auðvitað augljóst. Ríki og sveitarfélög taka stærri og stærri hluta af ráðstöfunarfé fólks af því, og útdeila því svo eins og opinberum starfsmönnum þykir skynsamlegast. Nýir skattar eru lagðir á og þeir sem fyrir voru eru hækkaðir. Tollar og vörugjöld taka gríðarlegt fé frá borgurunum og færa í opinbera sjóði og sama má segja um alls kyns leyfisgjöld og eftirlitsgjald. Allt þetta eykur hlutdeild hins opinbera en minnkar hlut einstaklingsins. Þetta er það augljósa.
En hitt meginatriðið er ekki síður alvarlegt. Hið opinbera skiptir sér meira og meira af því hvernig fólk fær að lifa lífi sínu. Það er byrjað smátt og þá með atriðum sem flestum þykja sjálfsögð, svo sem með því að skylda menn til að nota bílbelti. En svo er alltaf haldið áfram. Síðustu misserin hefur atlagan gegn samningafrelsinu verið áberandi. Nú er mönnum skyndilega bannað að semja með ýmsum hætti um mál sem þó koma engum öðrum við. Oft er þetta látið heita „neytendaréttur“, en er í raun aftenging samningafrelsis. Einnig þar er byrjað á einhvers konar bílbelta-ákvæðum, en svo haldið áfram hratt og örugglega. Meginhugsunin virðist vera sú, að hætt sé við því að sumir semji af sér, taki óþarflega áhættu eða skrifi undir samning sem þeir annað hvort lesi ekki eða skilji ekki. Og þess vegna verður að banna þeim og öllum hinum að semja á þann hátt.
En með hverri nýrri slíkri reglu minnkar einstaklingurinn, frelsi hans og ábyrgð hans á eigin lífi. En ríkið stækkar að sama skapi.