Fimmtudagur 12. júlí 2012

Vefþjóðviljinn 194. tbl. 16. árg.

Nú er búið að setja upp gjaldmæla á bílastæðum á lóð Landspítalans.

Það eru ákveðin tímamót að fallið hafi verið frá stefnunni um jafnt aðgengi fyrir alla. Komugjöldin ógurlegu eru ekki umkvörtunarefni lengur ef þau eru lögð á þá starfsmenn og sjúklinga sem gerast svo djarfir að koma á einkabíl vegna erinda sinna á sjúkrahúsinu. 

Líklegra er þó að hér sé um að ræða það sem borgaryfirvöld og fleiri myndu kalla „lausn á bílastæðavandanum“ sem felst í að starfsmenn leggja bílum upp á gangstétt og á akstursrein á Barónsstíg á meðan að gjaldskyldu stæðin standa tóm. 

Þetta sést ágætlega á myndinni hér að neðan.

Loftmyndin var tekin þegar sól er hæst á lofti, á háannatíma og lýsir því ágætlega sem er til staðar. Gjaldskyldu stæðin eru tóm en bílum er troðið á Barónsstíg sem alls ekki er gerður fyrir slíkt.

Ef stöðumælar væru settir upp á Barónsstíg myndi vandamálið flytjast frekar í íbúðahverfin.

Hin „lausnin“ á bílastæðavandanum mun svo vera að starfsfólk nýja spítalans og farlama sjúklingar muni almennt hjóla á staðinn. Um það hefur verið ritaður kafli í skýrslu og þá er bara að bíða og sjá hvort ekki rætist úr þeirri frómu ósk.