Vefþjóðviljinn 193. tbl. 16. árg.
Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi í gær tveimur íslenskum blaðamönnum í vil í máli gegn íslenska ríkinu. Eins og búast mátti við vakti niðurstaðan mikinn fögnuð hjá íslenskum fjölmiðlamönnum sem töldu sig þar komast nær sínu stöðuga markmiði, að þurfa ekki að bera ábyrgð gagnvart neinum.
Hinn yfirvegaði fræðimaður, Þorvaldur Gylfason, sérfræðingur ríkisútvarpsins í stjórnskipunarmálum var fljótur til og skrifaði grein þar sem hann mun hafa lagt til að dómarar Hæstaréttar yrðu reknir, þar sem dómur þeirra hefði ekki staðist fyrir æðri erlendum dómstóli. Svipaðan söng hefur mátt heyra héðan og þaðan. Mannréttindadómstóll Evrópu er hinn allra merkasti dómstóll, æðsti dómstóll Íslands og þaðan koma jafnan hinar mestu réttarbætur.
Það er alveg rétt hjá fjölmiðlamönnum að mannréttindasáttmáli Evrópu hefur lagagildi á Íslandi. Honum var veitt það árið 1994, með lögum nr. 62/1994. Í fyrstu grein þeirra segir einmitt að mannréttindasáttmálinn hafi lagagildi á Íslandi.
En hvað segir í næstu grein sömu laga? Þar segir einfaldlega: „Úrlausnir mannréttindanefndar Evrópu, mannréttindadómstóls Evrópu og ráðherranefndar Evrópuráðsins eru ekki bindandi að íslenskum landsrétti.“
Hefur einhver fjölmiðlamaður eða álitsgjafi sagt landsmönnum frá þessu, síðasta sólarhringinn?
Sumir álitsgjafar sem mjög hafa fagnað niðurstöðu dómaranna í Strasbourg hafa lýst henni sem vel heppnuðu fullveldisafsali. Gott ef einn þingmanna Samfylkingarinnar talaði ekki svo. En hvað myndu menn segja ef dómararnir kúventu einn daginn? Ef þeir myndu skyndilega marka þá stefnu að vel varið einkalíf væri mikið mannréttindamál og að ókurteis umræða um fólk væri mannréttindabrot. Þætti mönnum þá jafn fínt að lúta erlendum dómstólum?
Hvað myndu menn segja ef mannréttindadómstóll Evrópu segði einn daginn að mannréttindi kröfuhafa væru brotin með því að þeir fengju ekki að innheimta gengislán sem fólk hefði tekið hjá þeim? Að gengislánadómar Hæstaréttar Íslands væru mannréttindabrot. Myndu menn þá telja allt gott sem kemur að utan? Eða ætli þá myndi rifjast upp fyrir þeim lagagreinin sem segir að dómar mannréttindadómstóls Evrópu séu ekki bindandi í íslenskum rétti?
En ekki þar fyrir, auðvitað er Vefþjóðviljinn hlynntur skoðanafrelsi. Menn eiga að vera mjög frjálsir að því að segja skoðun sína á mönnum og málefnum. Vefþjóðviljinn fagnar því ef íslensk lög gera skoðanafrelsi hátt undir höfði. Frjálshuga fólk hlýtur að vilja standa öflugan vörð um skoðanafrelsið. Þótt menn kunni að gagnrýna einsleita umræðu um tilteknar dómsniðurstöður, þá snýst sú gagnrýni um umræðuna en ekki málefnið.